Mikil hátíðahöld fóru fram nú um helgina í Þorlákshöfn þegar Hamingjan við hafið náði hámarki. Á föstudagskvöldið fóru bæjarbúar í sína árlegu litaskrúðgöngu með Lúðrasveit Þorlákshafnar í broddi fylkingar. Gangan endaði í Skrúðgarðinum og þar fór svo fram kvöldvaka í tjaldinu þar sem fram komu VÆB, Lay Low, Moskvít, Júlí Heiðar og Hr. Eydís. Anna Margrét Káradóttir var kynnir kvöldsins. Jóhanna Hjartardóttir afhenti lista- og menningarverðlaunin og féllu þau að þessu sinni í skaut Ágústu Ragnarsdóttur. Að kvöldvöku lokinni tók svo hljómsveitin Sunnan 6 við keflinu og hélt uppi stuði á dansleik fram á nótt.
Á laugardeginum hófst dagskrá kl. 10 þegar markaður var opnaður í Versölum. Þar var margt í boði, fatnaður, listmunir, skart, harðfiskur og vöfflur svo eitthvað sé nefnt. Barna- og fjölskyldudagskrá hófst svo kl. 12:30 þegar Árni Beinteinn og Sylvía sungu Bestu lög barnanna. BMX brós sýndu svo listir sínar við mikinn fögnuð viðstaddra. Diskótekið Dísa var með krakkaball þar sem mikið var dansað og sungið. Barnadagskránni lauk svo með söngvarakeppni barnanna þar sem fjöldi flottra söngvara og dansara steig á stokk og flutti hvert frábæra atriðið á fætur öðru. Margir höfðu æft atriði sín vel og hannað dansspor. Flottir krakkar þar á ferð.
Um kvöldið var svo komið að Hamingjutónleikunum sem voru sérlega glæsilegir í ár. Ívar Daníels á veg og vanda að því að setja saman þennan frábæran hóp listamanna sem kom fram á tónleikunum. Hljómsveitina skipuðu Helgi Reynir Jónsson, Tómas Jónsson, Valdi Olgeirs, Þorvaldur Þorvaldsson og Halldór Smárason. Um sönginn sáu þau Ívar Daníels, Daníel E. Arnarsson, Elísabet Ormslev, Stefanía Svavars, Rósa Björg og Íris Hólm. Einnig kom Jónas Sig fram með hljómsveitinni og Herra Hnetusmjör sló svo botninn í tónleikana. Þvílík tónlistarveisla og gæðastandardinn í hvínandi botni.
Að tónleikum loknum var svo haldin glæsileg flugeldasýning.
Þá tók við dansleikur með Stebba Hilmars, Sverri Bergmann, Unni Birnu Björnsdóttur og hljómsveit. Mikil stemning var á ballinu og tjaldið troðfullt allan tímann.
Frábær hátíð að baki hér í Hamingjunni. Veðrið lék við hátíðargesti alla vikuna.