Verðmætasköpun og velferð

Hvernig er staðan?

Flestum er ljós sá árangur sem er að nást í atvinnumálum í okkar góða sveitarfélagi. Verkefnin eru fjölbreytt og faglega að þeim unnið. Öll stærri verkefni hafa fengið ítarlega umfjöllun í bæjarstjórn, íbúafundir hafa verið haldnir og í hvívetna vandað til verka. Ástæða er til að hrósa þeim sem að þessum málum hafa unnið.

Fyrir rétt rúmum tveimur árum var kosið í Ölfusi. Við undirrituð buðum okkur fram undir merkjum D lista og uppskárum rétt um 56% atkvæða. Þar fundum við vel að áhersla okkar á atvinnumál sem undirstöðu velferðar réði miklu um árangur framboðsins. Íbúarnir völdu að sækja fram á forsendum verðmætasköpunar og við tökum þeirri ábyrgð alvarlega.

Nú er svo komið að stór og smá atvinnuverkefni telja í tugum og eðlilegt að fólk geti átt erfitt með að átta sig á stöðu hvers verkefnis fyrir sig. Það er eðlilegt enda gætu störfin talið hundruð, þau stærstu í upplýsingatækni og matvælaframleiðslu. Til að varpa ljósi á þessi mál langar okkur að gera hér örstutta grein fyrir stærstu verðmætasköpunarverkefnunum sem nú er unnið að hér í Ölfusi:

Það er því ekki úr vegi að líta til stærstu áhrifa og ásýndar hvað þetta varðar: 

First Water

First Water vinnur að verkefni sem er ekki einungis eitt þeirra stærstu í landeldi á heimsvísu heldur án vafa eitt stærsta uppbyggingarverkefni á Íslandi í sögu landsins. Sama hvort litið er til orkunotkunar, landnotkunar, vatnsþarfar, ásýndar eða annað. Þar er fyrirhugað að fullvinna lax. Hönnun er langt komin og framkvæmdir hafnar við fyrsta áfanga. Myndin hér fyrir neðan sýnir því nokkuð glögglega hvers má vænta:

Geo Salmo

Að mörgu leyti er verkefni Geo Salmo hliðstæða þess sem unnið er að hjá First Water. Unnið er að fullvinnslu laxa í kerjum á landi. Eðlilega er einhver munur á tækninni og einstaka áherslum en grunnáherslurnar eru þær sömu; landeldi á laxi á grundvelli sjálfbærrar nýtingar á staðbundnum auðlindum. Jarðvegsframkvæmdir eru hafnar og hönnun langt komin. Myndin hér fyrir neðan sýnir nokkuð glögglega hvers má vænta:

Landeldisstöðin Þór

Þriðja verkefnið innan þessa mengis er Landeldisstöðin Þór. Eins og með hin tvö verkefnin er þar stefnt að þauleldi á laxi á landi. Myndin hér fyrir neðan sýnir nokkuð glögglega hvers má vænta:

Heidelberg

Þekktur er vilji fyrirtækisins Heidelberg til að framleiða umhverfisvæn íblöndunarefni í steypu í sveitarfélaginu Ölfusi. Verkefnið er liður í áformum Heidelberg Materials að minnka kolefnisspor sementsframleiðslu sinnar til muna en sementsiðnaðurinn ber ábyrgð á 6-8% af kolefnislosun af mannavöldum á heimsvísu. Með því að blanda móbergi við sement má draga úr losun koltvísýrings um allt að 20% og með framleiðslunni í Þorlákshöfn er áætlað að hægt sé að draga úr losun koltvísýrings vegna sementsframleiðslu um allt að 1,3 milljónir tonna á ári. Það samsvarar liðlega fjórðungi af heildarlosun Íslands eða nálægt því sem allur bílafloti landsmanna losar á ári. 

Samhliða verður byggð höfn til að þjónusta framleiðsluna enda fyrirhugað að megnið af efninu komi úr sjávarnámum. Ljóst er að höfnin mun einnig nýtast  öðrum sem eru í starfsemi á svæðinu og þar með skapa tækifæri fyrir samfélagið í heild. Haldin verður atkvæðagreiðsla meðal íbúa áður en lokaákvörðun verður tekin. 

Verkefnið er langt komið hvað hönnun varðar. Myndin hér fyrir neðan sýnir nokkuð glögglega hvers má vænta:

Linde gas

Alþjóðafyrirtækið Linde gas hefur sýnt því áhuga að setja upp súrefnisframleiðslu til að þjónusta fiskeldisfyrirtækin. Horft er til staðsetningar innan grænna iðngarða. Verkefnið er enn í fýsileikakönnun en búast má við því að útlit þess verði nálægt því sem er í Vogum á Vatnsleysuströnd og víðar:

Green Sea Harvest

Green Sea Harvest er eitt þeirra fyrirtækja sem er nú í hagkvæmniúttekt hvað varðar að setja upp fóðurverksmiðju innan grænna iðngarða til að þjónusta laxeldisfyrirtækin. Verkefnið er enn í fýsileikakönnun en um er að ræða hefðbundið vinnsluhús sem ekki kallar á mikið rask né stóra lóð:

North Ranga

Fyrirtækið North Ranga er í raun það fyrirtæki sem vinnur að stærsta verkefninu innan sveitarfélagsins, sama hvort mælt er í störfum, rafmagnsnotkun eða fjárfestingu. Vissulega er þar eins og víðar um að ræða fugl í skógi frekar en í hendi. Ekki verður þó fjöður yfir það dregin að hingað til hefur undirbúningur gengið vel. Verkefnið felst í því að nýta íslenska orku og þeirri staðreynd að gagnastrengur landsins kemur upp í Þorlákshöfn til að byggja eitt af stærri gagnaverum í Evrópu innan grænna iðngarða í Þorlákshöfn. Verkefnið er enn í fýsileikakönnun en ef af því verður mun þar verða um að ræða eitt stærsta slíka verkefni hér á landi og þótt víðar væri leitað. Hönnun mannvirkja hefur ekki farið fram en til úrskýringa er hér sett mynd af nokkuð hefðbundnu útliti slíks gagnavers:

Hótel Black Beach (vinnuheiti)

Ferðaþjónusta í sveitarfélaginu er í örum vexti. Stærsta verkefnið er sjálfsagt uppbygging á viðburðatengdri ferðaþjónustu í kambinum við golfvöllinn. Þar er hugmyndin að byggja stórt hótel sem jafnframt verður afþreyingartengt með framboði á þjónustu við golfara, sjósport, fjórhjól, fjallahjól o.fl. Einnig er þar stefnt á að reka spa, veitingastað o.fl. Verkefnið er í lokahönnun og lagðar hafa verið fram myndir sem sýna útlit þess í kambinum við fjöruna með anddyri í átt að svæðinu sem umlykur golfvöllinn:

Hótel Ós (vinnuheiti)

Þegar eru hafnar framkvæmdir við Óseyrarbrú. Þar stefna frumkvöðlar að því að byggja og reka hótel sem nýtir einstaka staðhætti. Stefnt er að því að reka hótel, veitingastað og ráðstefnuþjónustu. Hótelið mun verða þessu líkt í útliti:

Hótel Entrance (vinnuheiti)

Við aðkomuna til Þorlákshafnar er nú unnið að hönnun á hóteli og veitingastað þar sem jafnframt er fyrirhugað að reka gróðurhús. Verkefnið er í undirbúningi en lagðar hafa verið fram myndir sem sýna hugmyndina að baki framkvæmdinni:

Harbor Hotel (vinnuheiti)

Unnið er að hönnun á nýjum miðbæ í Þorlákshöfn. Þar er meðal annars fyrirhugað að reka hótel, veitingastaði og menningarsal. Enn hefur útlit hótelsins ekki verið ákveðið en ein hugmyndin er að styðjast við hönnunina sem sjá má á myndinni hér að neðan og styðjast þar m.a. við tilvísun í hið fornfræga Lefoliihús sem stóð í Þorlákshöfn og varð eldi að bráð. Ítrekað er að hönnun liggur ekki fyrir: 

Til einföldunar hefur ofangreindum verkefnum verið skipt í þrennt: 

  1. Græna iðngarða
  2. Ferðaþjónustu
  3. Starfsemi innan þéttbýlisins.

Neðangreindar myndir sýna áætlaða staðsetningu þessara fyrirtækja:

Grænir iðngarðar

Ferðaþjónusta

Starfsemi innan þéttbýlisins

Fylgt úr hlaði

Til viðbótar við það sem að framan greinir eru fjölmörg verðmætaskapandi verkefni í undirbúningi. Þannig eru Kambar núna að leggja lokahönd á afar fullkomið iðnfyrirtæki sem sérhæfir sig í glugga- og hurðaframleiðslu. Hekla vinnur að hönnun á þjónustu- og vöruhúsi. Iceland freeze dry er að vaxa fiskur um hrygg með aukinni áherslu á heilsu og fæðubótaefni. Þjónustufyrirtækið Skretting, sem fyrst og fremst þjónustar fiskeldi, vinnur að því að koma upp starfsemi. Vaxa technology, sem framleiðir m.a. bláan matarlit úr smáþörungum, er að vaxa hratt og framleiðir nú þegar fjölmargar fullunnar vörur hér í Þorlákshöfn. Smyril Line er að hefja byggingu á nýju vöruhúsi og lengi má áfram telja.

Þá eru fjölmörg verkefni í dreifbýlinu ýmist í undirbúningi eða þegar orðin að veruleika. Má þar til dæmis nefna stækkun hótelsins við Eldhesta, stækkun Hótels Kviku, þreföldun vatnsframleiðslu Icelandic glacial, baðlóns við Hveradali o.m.fl. Enn eru þá ótalin þau fjölmörgu verkefni sem tengjast orkuvinnslu svo sem orkurannsóknir í Ölfusdal, orkurannsóknir í Bolöldu, vindgarða á Mosfellsheiði o.m.fl.

Að framansögðu má sjá að atvinnulífið í Ölfusi stendur sterkt. Hér eru tækifæri til að skapa velferð á grunni verðmætasköpunar. Stöndum saman um að nýta tækifærin.

Bæjarfulltrúar D lista

Gestur Þór Kristjánsson

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir

Grétar Ingi Erlendsson

Erla Sif Markúsdóttir

Guðlaug Einarsdóttir