Nú liggur fyrir að kjósa á um framtíð Heidelberg í íbúakosningu sem haldin verður frá 25. nóvember fram til 9. desember næstkomandi.
Áður en lengra er haldið er best að taka fram að ég hef enga hagsmuni af þessu verkefni, hvorki fjárhagslega né aðra. Ekki að öðru leiti en að vilja sveitarfélaginu og íbúum þess fyrir bestu.
Í þessu máli hefur ýmsu verið haldið á lofti og ótrúlegt að hlusta á málflutning þeirra sem hafa sett sig á móti þessu verkefni í mörgum tilfellum. Það eru nokkrir sem mega vel hugsa sinn gang hvernig þau hafa komið fram með ásakanir í garð samborgara sinna sem þau hafa jafnvel þekkt alla ævi og vita vel að eiga ekki við rök að styðjst, en það virðist allt leyfast í þessu máli í þeirra huga.
Það er mjög sérstakt að horfa upp á þetta ferli, það ætti að nægja að fyrirtækin sem vilja koma hingað þurfi að eiga við stjórnkerfið og fylgja lögum og reglum en þess í stað þarf að fara í gegn um óvæga opinbera umræðu og réttlæta tilvist sína.
Ég vona að þetta sé ekki það sem koma skal fyrir önnur fyrirtæki enda er ljóst að við munum aldrei verða öll ánægð með allt sem er gert eða öll þau fyrirtæki sem koma hingað. Það þurfa hinsvegar allir að eiga sama rétt og fá sömu meðferð, fólk og fyrirtæki. Það hvernig þetta verkefni hefur farið í gegn um allt annað ferli en önnur fyrirtæki er í sjálfu sér algerlega óeðlilegt og engum til framdráttar.
En þetta er komið í þessa vegferð og er stórt mál og mikið hægt að fara yfir, ég mun reyna að stikla á stóru og fara yfir helstu þætti.
Umferðin
Einn af helstu punktum hjá þeim sem sett hafa sig á móti þessu verkefni er blessuð umferðin. Þau láta hljóma eins og að við þessa framkvæmt muni umferðin stökkbreytast.
Þau hafa kannski ekki verið að fylgjast með síðustu ár en umferðin hefur jafnt og þétt verið að aukast til muna og mun halda áfram að gera það hvort sem Heidelberg verður hér eður ei.
Talað er um landeldi á laxi upp á allt að 150.000 tonn. Ég veit ekki hvernig minnihlutinn heldur að laxeldið fái fóður og annað efni til laxeldisins eða hvernig afurðir frá eldinu fari frá stöðvunum en líkur eru til þess að það muni þurfa umtalsverða trukkaumferð til að koma hlutum til og frá stöðvunum. Til samanburðar þá er allur þorskkvóti íslendinga rétt rúmlega 200.000 tonn. Við erum því að tala um umtalsverða framleiðslu sem áætluð er á þessu litla svæði við Þorlákshöfn á komandi árum.
Þetta er fyrir utan alla aðra umferð sem verður af öðrum fyrirtækjum sem staðsett eru og munu koma á svæðið. Vatnsátöppunarverksmiðjan er að stækka með tilheyrandi umferð, hér er að rísa gluggalaus gluggaverksmiðja, höfnin sækir alltaf sífellt í sig veðrið og svona mætti lengi telja verkefni sem mun þýða meiri umferð.
Hér verð ég að koma inn á að ég er stuðningsmaður allra þessara verkefna, hvort um sé að ræða laxeldi, vatnsátöppun, höfnina eða annan rekstur.
Þar fyrir utan er bærinn sífellt vaxandi af íbúafjölda sem þýðir að sama skapi vaxandi umferð fólks og ferðamanna. Það er því ljóst að Heidelberg er bara lítill hluti af umferðinni sem fara mun um svæðið á komandi árum.
Í stað þess að vilja hefta vöxt sveitarfélagsins hefði ekki verið nær hjá minnihlutanum að verja þeim tíma sem þau hafa eytt í að tala niður sveitarfélagið í fjölmiðlum að herja á vegagerðina og stjórnvöld og benda þeim á að vegurinn í þrengslunum sé nú þegar sprunginn og það sé nauðsynlegt að hefja umbætur á veginum í stað þess að vilja takmarka vöxt sveitarfélagsins við veginn. Með þeirri baráttu væri raunverulega verið að hugsa um hag sveitarfélagsins og íbúa þess. Veginn þarf að bæta burtséð frá Heidelberg.
Náttúran
Minnihlutinn hefur mikið talað um ást sína á náttúrunni og látið í veðri vaka að þeir sem séu hlynntir frekari uppbyggingu í sveitarfélaginu sé sama um náttúruna.
Höfum það á hreinu að þér getur vel þótt vænt um náttúruna þó þú viljir ekki friða allt í drep.
Hvað er um að ræða hérna? Efnistaka úr Litla-Sandfelli sem stendur eitt og sér þarna í þrengslunum og flestir þeir sem eru að fara að taka afstöðu til verkefnisins hefðu varla geta bent á korti áður en þessu umræða byrjaði.
Minnihlutinn hefur blásið þetta mál upp með að hér eigi að flytja heilt fjall úr landi. Höfum hér í huga að þetta er fremur ofvaxinn hóll en fjall sem um ræðir. Það að hóll sé til staðar þýðir ekki að það sé óeðlilegt að hann sé nýttur og efnið notað í byggingarefni. Hluti af framþróun okkar er að nýta landið.
Mér þykir vænt um náttúruna og hef bæði gengið og riðið um svæðið í þrengslunum, ég smalaði þar forðum daga og þykir vænt um svæðið. Ég sé ekkert að því að efnistaka úr fellinu eigi sér stað og tel að það sé jákvætt að nýta landið sé þess kostur.
Höfum það í huga að þessi hópur sem talar gegn þessu verkefni er oftar en ekki sami hópurinn og hefur talað gegn öllum verkefnum sem krefjast þess að við nýtum náttúruna. Nægir að nefna Kárahnjúkavirkjun. Á sínum tíma var verkefnið fordæmt og talað um náttúruspjöll og ég veit ekki hvað. Í dag er Kárahnjúkavirkjun þvílíkt prýði sem veitir mun fleirum tækifæri á að njóta nátturunnar þarna uppfrá, og ekki má gleyma Stuðlagili sem uppgötvaðist í kjölfar virkjunarinnar sem og þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað fyrir austan vegna virkjunarinnar.
Ég er ekki að halda því fram að með þessari vinnslu muni uppgötvast ný náttúruperla en nýting náttúrunnar hefur verið hluti af framróun okkar og svona verkefni geta veitt ný tækifæri sem við sjáum ekki fyrir okkur í dag.
Mengunin.
Minnihlutinn hefur reynt að setja mengunarstimpilinn á verkefnið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir verður öll vinnsla verksmiðjunarinnar innandyra og gætt að því að efnið haldist þar með hinum ýmsu kerfum. Ekkert hefur komið fram sem fer gegn þeirri fullyrðingu og eðlilegt að láta fyrirtækið líkt og aðra njóta vafans ef einhver er. Þetta verkefni ætti miðað við þær upplýsingar sem komnar eru að vera með litla sem enga mengun umfram annan rekstur.
Bæjarútlitið
Minnihlutinn hefur farið mikinn um útlit verksmiðjunnar sem við vitum í sjálfu sér ekki hvernig mun líta út að lokum, ekki frekar en með önnur fyrirtæki sem koma hingað og ætla í uppbyggingu, þú veist aldrei fyllilega hvernig það kemur út fyrr en uppbyggingu er lokið.
Þau hafa talað um turnana háu að þeir verði lýti á svæðinu. Áhugavert er í því samhengi að bæjarstjórn var á síðasta fundi sínum að staðfesta erindi frá Laxabraut 31 þar sem farið er fram á nýtt deiliskipulag er varðar súrefnisframleiðslu á lóðinni, en við þá framleiðslu er notast við turna allt að 55 metra háa. Minnihlutinn sá enga átæðu til að mótmæla þessu, hvorki í skipulags og umhverfisnefnd né í bæjarstjórn. Það er því ljóst að það er ekki sama hvort að það sé Jón eða séra Jón hjá minnihlutanum enda er einn af aðalpunktum þeirra gegn Heidelbergsem þau benda á í málflutningi sínum gegn Heidelberg eru sílóin sem munu rísa við verksmiðjuna.
Ég hef verið það heppinn að geta ferðast víða og hef þar meðal annars haft í huga sérstaklega síðasta árið áhrif verksmiðja og iðnaðs á umhverfi bæjarstæða sem ég hef heimsótt. Ég hef rætt við marga heimamenn um afstöðu til verksmiðja sem eru á svæðinu og ótrúlegt að heyra hvað fólk úti er jákvætt í garð iðanaðar og starfa í nærsamfélaginu. Ég hef spurt mismunandi ferðafélaga og aðra ferðamenn um hvernig þeim finnist bæir og umhverfi þegar ég sé verksmiðjur og hef ekki heyrt neinn tala um verksmsiðjurnar sem eru á svæðinu þegar þeir tala um fallegu bæina og svæðin.
Við vitum að atvinnulífið er hluti af góðum bæjarstæðum og flestir líta það jákvæðum augum að sjá að raunhagkerfið sé að störfum. Það er ástæða fyrir því að fólki finnst svona gaman að fara niður á höfn eða fara í heimsóknir í fyrirtækin, það vill sjá raunhagkerfið að störfum.
Mútur
Einn af ógeðfelldari málflutningi minnihlutans hlýtur að vera persónulegu árásirnar sem þau hafa viðhaft gagnvart nokkrum opinberum aðilum sem og saklausum bæjarbúum sem þau mála upp sem einhverja hrappa og halda því fram að hafi staðið í múturgreiðslum sem og viðtöku múturgreiðslna. Þessi málfutningur er svo fjarri lagi að það er ótrúlegt að viti borið fólk hafi sett þessa þvælu fram.
Þau létu það sér ekki nægja heldur fóru að halda því fram að þegar Heidelberg var að styrkja íþrótta, æskulýðs og félagsstarf hér í sveitarfélaginu að um væri að ræða mútur. Ég veit ekki hvaða kjáni ætlar að kaupa það að Heidelberg sé að greiða mútur þegar þeir vilja styrkja starf á borð við lúðrasveitina, kirkjuna, björgunarsveitina eða íþróttafélögin.
En þessi hópur fór að básúna um mútur og fann því allt til foráttu að fyrirtækið væri að styrkja innan sveitarfélagsins og stöðvuðu meðal annars nokkur félög frá því að taka við fjármunum. Á sama tíma finnst þessum hóp eðlilegt að leita sífellt til annara fyrirtækja í sveitarfélaginu og biðja um styrki. Hvað eiga önnur fyrirtæki að hugsa þegar umræðan er með þessum hætti. Er okkur óhætt að styrkja þessa hluti, erum við að múta þessum hópum. Þetta er sorglegt að setja svona jákvæðan hlut í þennan búning.
Fyrirtækið hefur þegar sýnt að það er tilbúið að styrkja félagsstarfsemi í sveitarfélaginu sem hlýtur að teljast gott. Ég hygg að flestir vilja styðja við nærsamfélagið og þetta skref sýnir fremur vilja Heidelberg til að verða hluti af samfélaginu, sem við ættum að fagna.
Þessi málflutingur minnihlutans dæmir sig sjálfur og mun verða þeim til ævarandi skammar, það er sérstaklega ógeðfellt í svona litlu samfélagi að væna fólk sem þau þekkja vel um slík vinnubrögð og hafa allir tekið vel niður fyrir sig sem taka undir svona málflutning. Þessi ósvífni hefur verið sorglegasti þátturinn í umræðunni um Heidelberg og ætti að setja allan málflutning minnihlutans í annað samhengi, þau svífast einskis í vegferð sinni gegn fyrirtækinu.
Það jákvæða
Það skiptir máli að fara aðeins inn á hina jákvæðu punkta sem fylgja Heidelberg verkeninu. Hér koma peningar að sjálfsögðu inn í myndina.
Til að byggja upp gott samfélag þarf stöðugt og gott atvinnulíf. Það er grundvöllur í öllum samfélögum að hafa vinnu fyrir fólk. Ekki skemmir ef að vinnan getur verið í fjölbreyttum geirum og samfélagið dreift eggjunum í fleiri körfur. Því fleiri fyrirtæki því sterkari grunnur fyrir meiri þjónustu í bænum fyrir alla.
Það eru þó ekki bara störf sem af þessu hlýst, sveitarfélagið ætti að fá greitt háar upphæðir á ári hverju sem nýtast í samfélagið. Fasteignaskattar, hafnargjöld og önnur gjöld sem þetta verkefni ætti að greiða geta mögulega hlaupið á hundurðum milljóna á ári hverju.
Niðurlag
Það er ljóst að þetta verkefni er risavaxið af stærð og það getur hrætt marga og það er skiljanlegt. Þegar fólk heyrir talað um umferðina og mengun er skiljanlegt að fólk stígi aðeins til baka og hræðist það sem koma skal. Ef þetta er þó skoðað betur ætti fólk að sjá að það ætti ekkert að óttast við þetta verkefni.
Ég vona að skynsemin verði ofan á hjá fólki þegar það nýtir sér lýðræðislegan rétt sinn og kýs í komandi íbúakosningum. Kynnið ykkur málin vel og farið fram með opin hug.
Ég gæti haldið lengi áfram um þetta verkefni en verð að láta staðar numið einhverstaðar. Ég mun ekki missa svefn hvort sem þetta verður að veruleika eður ei, ég er hinsvegar stuðningsmaður öflugs og fjölbreytts atvinnulífs til að byggja sterkan grunn fyrir okkar góða samfélag, þess vegna mun ég kjósa já.
Ólafur Hannesson