Gott er að hafa ekki öll eggin í sömu körfu

Þann 30. nóvember mun þjóðin öll ganga til Alþingiskosninga, en við í Ölfusi munum einnig greiða atkvæði um það hvort reisa eigi hér höfn og verksmiðju til að vinna móberg til notkunar í sement, sem er uppistöðuefnið í steinsteypu. 

Slíka spurningu eigum við að nálgast af alvöru, kynna okkur málið, vega og meta kosti og galla og taka svo upplýsta ákvörðun. Það er ekki vænlegt til árangurs að eltast við upphlaup og hlusta aðeins á þau sem mest skrifa á Facebook eða láta hæst á fundum.

Það er búið að vera mjög spennandi að fylgjast með uppbyggingunni í og við Þorlákshöfn síðustu ár. Hvert stóra verkefnið rekur annað og öll eru þess eðlis að við getum verið stolt af þeim, hvort sem um er að ræða landeldi á fiski eða vinnslu á efni til notkunar í umhverfisvænni sementsframleiðslu. Steinsteypan sem er okkur nauðsynleg er líka uppspretta stórs hluta kolefnislosunar á heimsvísu. Með því að nota móberg sem íblöndunarefni er hægt að minnka þessa losun svo eftir verður tekið. 

Áætlanirnar núna gera ráð fyrir því að verksmiðjan verði mun fjær byggð í Þorlákshöfn en upphaflega var lagt upp með og starfsemin verður öll í lokuðum byggingum. Ég hreinlega geri ekki ráð fyrir að við munum mikið taka eftir verksmiðjunni svona dags daglega – sérstaklega þegar við höfum í huga að mikil uppbygging er á svæðinu í heild og útflutningur á efninu verður um nýja höfn, sem fyrirtækið ætlar að byggja. Þessi höfn verður svo afhent sveitarfélaginu þegar búið er að greiða upp framkvæmdakostnað en í því felst mikil uppgrip fyrir bæinn. 

Þrátt fyrir að Ölfus sé nær höfuðborgarsvæðinu en flest byggðarlög á landinu á það sama samt við um okkur, að við getum verið efnahagslega viðkvæmari en stærri sveitarfélög. Þegar vinnuveitendur eru fáir og atvinnustarfsemin einsleit er mikil hætta á að bakslag í geiranum eða hjá einu fyrirtæki geti haft mikil og neikvæð áhrif á alla íbúa.

Þess vegna skiptir það sköpum fyrir framtíð samfélagsins okkar að stoðir atvinnulífsins verði styrkari og fjölbreyttari. Til að reka verksmiðjuna segir Heidelberg að þau muni þurfa að vera með 80 manns í vinnu. Allt þetta fólk mun ekki endilega búa hér í sveitinni, en stór hluti þeirra mun gera það – íbúðauppbygging síðustu ára mun auðvelda þeim flutninginn – og þau munu greiða útsvar til sveitarfélagsins okkar. Þá er líka gert ráð fyrir „óbeinum og afleiddum störfum“  en það eru störf hjá öðrum aðilum, sem verða til vegna starfsemi verksmiðjunnar. 

Að öllu þessu sögðu finnst mér augljóst að verksmiðja Heidelberg mun verða samfélaginu okkar til góðs og mun styrkja hér atvinnulíf, sem er forsenda þess að samfélagið okkar haldi áfram að blómstra og dafna. 

Hannes Sigurðsson