Eins og flestir íbúar sveitarfélagsins vita þá eru einungis nokkrir dagar í að við göngum til kosninga. Ekki aðeins til Alþingis heldur verður kosið samhliða um aðal- og deiliskipulagstillögu vegna mölunarverksmiðju og hafnar Heidelberg hér vestan Þorlákshafnar.

Umræðan um málið hefur verið mikil, þá sérstaklega undanfarna daga. Sumt málefnalegt, annað minna málefnalegt eins og gerist og gengur þegar um er að ræða stórar ákvarðanir. Ég er þakklátur fyrir það fólk sem hefur viðrað sínar skoðanir, hvort sem það hefur verið með eða á móti. Það verður oftast til þess að fleiri kynni sér hinar ýmsu hliðar á málunum sem svo leiðir til dýpri og málefnalegri umræðu. Það er mikilvægt að fólk velti upp öllum steinum, myndi sér skoðun og kjósi svo eftir eigin sannfæringu.

Mig langar þó aðeins til að árétta sitthvað í ljósi umræðunnar undanfarið á Facebook. Þar er ýmsu haldið fram sem ekki er samkvæmt sannleikanum. Þá sérstaklega það sem snýr að okkur sem myndum meirihluta bæjarstjórnar. 

Strax í upphafi var ljóst að verkefnið væri umdeilt meðal íbúa og var tekin sú ákvörðun um að setja það í íbúakosningu og leyfa þar með íbúunum sjálfum að velja eða hafna. Þegar sú ákvörðun var tekin ákváðum við í meirihlutanum að draga okkur í hlé og tala hvorki með né gegn verkefninu. Það var gert til þess að við værum ekki að hafa skoðanamyndandi áhrif á kjósendur. Fram til dagsins í dag hefur einungis einn bæjarfulltrúi af sjö gefið upp skoðun sína opinberlega í málinu. Það er því skrítið að lesa í athugasemdakerfum að „meirihlutinn sé að keyra þetta í gegn“ eða að „troða þessu í kokið á okkur“. Því fer víðs fjarri. Ég veit nefnilega ekki til þess að ég, né nokkur annar í meirihlutanum, hafi skrifað grein eða nokkuð annað þar sem fólk er beðið um að kjósa með verkefninu. Ég hef hins vegar alltaf hvatt fólk til að kynna sér málið og auðvitað kjósa þegar þar að kemur. 

Það má auðvitað gagnrýna margt í þessu eins og í öðru. Eflaust margt sem við hefðum getað gert betur. En að halda því fram að þetta sé eitthvað keppikefli hjá meirihlutanum eða að meirihlutinn sé að þiggja greiðslur fyrir að koma þessu í gegn er fjarstæðukennt. Þá finnst mér undarlegt, svo ekki sé dýpra í árina tekið, að störf kjörstjórnar og starfsmanna sveitarfélagsins séu gerð tortryggileg varðandi utanumhald kosninga og talningu atkvæða.  

Að endingu vill ég minna á að á heimasíðu sveitarfélagsins má finna ýmis gögn í tengslum við verkefnið. Hvet ég alla til að kynna sér málið, ef þið hafið ekki gert það nú þegar, og skunda svo á kjörstað. 

Grétar Ingi Erlendsson

Formaður bæjarráðs Ölfuss