Elsku Þorlákshöfnin okkar, fallega þorpið, þar sem hefur tekist að rækta vin í því sem áður var eyðimörk og skapa vænt, notalegt umhverfi sem varð til með samstöðu íbúa hér í bæ. Eftir uppbyggingu fyrri og núverandi kynslóða höfum við öll tækifæri til að geta notið með fjölskyldum okkar, vinum og kunningjum þessa hlýlega umhverfis. Við höfum lengi átt ýmsa valkosti er varða gönguleiðir, aðrar tegundir hreyfingar eða útivistar og það í náttúru í grennd við þéttbýlið og í dag getum við andað að okkur ferskasta sjávarlofti sem völ er á! 

Með samstöðu íbúa, hefur tekist að losna við t.d. hrikalega lyktarmengandi iðnað sem lengi vel var mikill akkillesarhæll á íbúabyggð bæði varðandi vöxt og vellíðan. Þorpið okkar hefur lengi verið staður sem byggðist upp á matvælaframleiðslu og var á þeirri vegferð í stækkandi, fjölbreyttari og nútímalegri mynd þó óvissubreytur séu alltaf til staðar. Uppbygging hefur verið mikil og þá sérstaklega í landeldi. Það hafa komið fram þau rök að ekki sé gott að eggin séu öll í sömu körfunni. Við höfum það svigrúm að geta leyft okkur að velja verkefni sem eru uppbyggileg og færa sveitarfélaginu Ölfusi tekjur til að viðhalda og byggja upp samfélagslega innviði. 

Fyrir um tveimur og hálfu ári komu fram í dagsljósið stórtækar hugmyndir fyrirtækis, um að flytja miklu meira magn af jarðefnum til útlanda en við höfum áður kynnst hér. Þau á að flytja um mislangan veg bæði á landi og úr sjó til Þorlákshafnar. Hér við túnfótinn í þorpinu okkar á að mala efnin, áður en flutningurinn heldur áfram eftir frekari flutningsleiðum í verksmiðjur erlendis þar sem þau verða að íblöndunarefni fyrir sement. Allt er þetta gert undir grænum formerkjum. Þannig er víst líklegast í nútímanum að slík verkefni fái brautargengi og eru hvítþvegin með þessum „umhverfisstimpli“. 

Málið snýst um fyrirætlanir stórfyrirtækisins Heidelberg Materials og ætti að vera orðið flestum kunnugt. Nú er aftur komið á dagskrá að við Ölfusingar fáum að kjósa um vilja til þessara framkvæmda. Þorp er í eðli sínu lítið, það þýðir að hafnar- og iðnaðarsvæði eru í flestum tilfellum í bakgarðinum hjá íbúum þess. Þess vegna er enn viðkvæmara, að planta niður ýmis konar ósóma þar (reyndar alltaf slæmt að planta niður ósóma). Fyrirtækið Heidelberg Materials sótti í fyrstu um lóðirnar Hafnarvegur 3, 5, 7 Austurbakki 1, 2, 3, 4, 6 Hafnarbakki 14, 16, 18 og Bakki 2, lóðir sem í grófum dráttum eru á milli hafnarinnar og golfvallarins. Mikil andstaða kom upp gagnvart þessari staðsetningu og heljarinnar ferli fór í gang sem ekki verður rakið hér, sem svo varð til þess að fyrirtækið sótti um að fá reisa þessa nýju verksmiðju við Laxabraut, örlítið fjær þorpinu en fyrri hugmynd, og það erum við íbúar Þorlákshafnar og Ölfuss að kjósa um núna. 

Þó eitthvað sé skárra en fyrsta hugmyndin þýðir ekki að það sé gott og það á sannarlega við í þessu tilviki að okkar mati. Þetta er þekkt aðferð til þess að selja hugmyndir og kallast „The door in the face technique”. Aðferðarfræði þessi vísar til þess þegar fólk er beðið um að samþykkja eitthvað sem er svo óraunhæft að flestir hafna því. Þá er lögð fram önnur tillaga eða hugmynd sem virðist mun sanngjarnari í samanburði við þá fyrri. Fólk er líklegra til að samþykkja seinni tillöguna hafandi hafnað þeirri fyrri, hugmynd sem það hefði ekki endilega samþykkt hefði hún verið lögð fram upprunalega. Því má spyrja sig, ef fyrri kostur Heidelberg hefði aldrei verið borinn á borð, myndi fólk upplifa seinni valmöguleikann á sama hátt, þ.e. algjörlega óhugsandi?

Okkur verður bókstaflega ómótt af tilhugsuninni einni saman um að þessar hugmyndir verði að veruleika. Þetta er svo firrt í alla staði, bæði á stórum og smáum skala, út frá þorpinu, nærumhverfi þess og landinu. Móbergið og annað efni sem nota á í vinnsluna þarf ekki bara að flytja innanlands og um nærumhverfið okkar heldur erlendis og þá um meinta höfn í Keflavíkinni sem okkur skilst, að hönnuð hafi verið af sama aðila og hin fræga Landeyjahöfn sem ferjar farþega milli lands og Eyja. Sú höfn er sannarlega ekki nothæf allan ársins hring.

Okkur líst illa á áform Heidelberg Materials, út frá manneskju, náttúru, fjölbreytileika mannlífs hér í þorpinu, út frá lífsgæðum og vegakerfi og eitt dæmi um neikvæð samlegðaráhrif þessa verkefnis eru á ferðaþjónustu (sjá í skýrslu Mannvits, nú COWI). Það er kominn tími til að einblína ekki bara á fá stór fyrirtæki, heldur líka minni og fjölbreyttari einingar, okkur öllum til heilla.

Við segjum nei við mölunarverksmiðju og já við bjartri framtíð Þorlákshafnar. 

Ágústa Ragnarsdóttir og Halldóra Björk Guðmundsdóttir, báðar búsettar í Þorlákshöfn.