Síðastliðinn miðvikudag var haldinn hluthafafundur landeldisfyrirtækisins First Water í Þorlákshöfn þar sem stjórnarformaður, forstjóri og fjármálastjóri félagsins fóru yfir reksturinn, stöðu framkvæmda og fjármögnun félagsins. Fram kom á fundinum að núverandi kjölfestufjárfestar ætla sér að styðja áfram þétt við félagið og uppbyggingu þess á næstu árum. Í dag var svo tilkynnt um samkomulag First Water við Landsbankann og Arion Banka um 80 milljón evra fjármögnun, eða um 12 milljarða íslenskra króna.
First Water er í samstarfi við fjárfestingabankann Lazard í London en félagið hyggst sækja allt að 200 milljónir evra, um 30 milljarða íslenskra króna, í hlutafé fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2025.
Á kynningarfundinum voru hluthafar upplýstir um að framkvæmdum við landeldisstöð félagsins í Þorlákshöfn miði vel áfram og er gert ráð fyrir að í lok næsta árs verði framleiðslugetan orðin um 8.300 tonn á ári. Þegar framleiðslan verður komin í full afköst árið 2029 verður ársframleiðslan um 50 þúsund tonn á ári. Gert er ráð fyrir að starfsmenn verði rúmlega 300 og afleidd störf í sveitarfélaginu verði hátt í 400.
Hluthafar spurðu m.a. um fyrirætlanir Heidelberg um uppbyggingu mölunarverksmiðju í næsta nágrenni við landeldisstöðvar First Water. Sögðu stjórnendur First Water að slík stóriðja færi engan veginn saman við viðkvæma starfsemi eins og landeldi. Um væra ræða hágæða matvælaframleiðslu og hvergi erlendis þar sem fulltrúar First Water hafa komið í seiðaeldisstöðvar og landeldisstöðvar hefur verið stóriðnaður svona nærri eins og kynnt hefur verið í Þorlákshöfn.
Um helgina verður kosið um mölunarverksmiðjuna samhliða alþingiskosningum og sögðu stjórnendur First Water treysta því að íbúar taki rétta ákvörðun fyrir sveitarfélagið til framtíðar og að Ölfus verði miðpunktur umhverfisvænnar hágæða matvælaframleiðslu á Íslandi.