Lesendur Hafnarfrétta kusu Ölfusing ársins 2024 nú í desemberlok. Alls bárust 148 tilnefningar og þakkar ritstjóri fyrir góðar viðtökur. Alls hlutu 40 einstaklingar, hópar eða fyrirtæki tilnefningu. Sú sem flest atkvæði hlaut í kosningunni og reyndar sigraði með yfirburðum heitir Ása Berglind Hjálmarsdóttir og er þetta annað árið í röð sem hún hlýtur þessa viðurkenningu frá lesendum Hafnarfrétta. Aðrir sem voru tilnefndir eru:
Ágústa Ragnarsdóttir
Almar Kárason
Anna Sólveig Ingvadóttir
Arnar Jónsson
Benjamín Þorri Benjamínsson
Björgunarsveitin Mannbjörg
Björn Ægir Hjörleifsson
Björn Kjartansson
Dagný Gísladóttir
Eggert Helgason
Einar Sigurðsson
Elísa Nielsen
Elliði Vignisson
Erla Dan Jónsdóttir
Geir Sveinsson
Grétar Ingi Erlendsson
Helga Halldórsdóttir
Hrímgrund ehf.
Ívar Þór Sigurðsson
Jacek Jasinowski
Jón Karlsson
Magnús Breki Þórðarson
Magnús Páll Haraldsson
Matthías Geir Gunnarsson
Njörður Smári Guðmundsson
Oskar Rybinski
Óttar Ingólfsson
Rúnar Birgisson
Sigríður Stefánsdóttir
Sigrún Ágústsdóttir og Lovísa Rúna Sigurðardóttir – dósaskvísurnar
Sigurbjörg Kristinsdóttir (Sibba) og Sóley Einarsdóttir
Sigurjón Ragnarsson
Skálinn
Stefán Jónsson
Theodór Elvar Arnar Owen Örvarsson
Tómas Jónsson
Þollóweennornirnar
Þorsteinn Jónsson
Þorvaldur Garðarsson
Ritstjóri Hafnarfrétta kíkti í heimsókn til Ásu Berglindar en árið hefur verið viðburðaríkt hjá henni. Hún hefur starfað í bæjarstjórn Ölfuss, sinnt verkefnastjórn í Hörpu og nú í byrjun aðventu náði hún kjöri til Alþingis fyrir Samfylkinguna. Hún er því 9. þingmaður Suðurkjördæmis næsta kjörtímabil og fyrsti Þorlákshafnarbúinn til að ná kjöri til Alþingis. Ég byrjaði á því að óska þingmanninum til hamingju með kjörið en dró svo fram viðurkenningarskjal, konfekt og blóm og óskaði henni einnig til hamingju með titilinn Ölfusing ársins 2024. Þegar við vorum sestar með kaffibollann spurði ég hana hvað henni þætti hafa staðið upp úr á nýliðnu ári.
,,Það sem stendur upp úr má segja að séu þessi mál sem maður hefur verið að fást við hérna í Bæjarstjórn Ölfuss sem er þá annars vegar Heidelberg og svo brimbrettasvæðið sem á nú að fara að setja landfyllingu yfir. Það hefur verið mjög lærdómsríkt fyrir margar sakir. Að taka þátt í bæjarstjórn hérna hefur verið mjög lærdómsríkt og sérstaklega af því að pólitíkin í kringum þessi mál er búin að vera svo mikil. Það ætti ekki að þurfa að vera svona mikil pólitík þar sem við erum öll kjörin til þess að vinna að hag íbúa hérna og ég held að í raun séu allir að gera eins vel og þeir geta. Ég hefði viljað hafa meira samstarf um hlutina því þá hefðum við í raun ekki þurft að fara í svona átök eins og hafa verið. Það sem við höfum verið að gera er bara að sinna starfi okkar, að benda á það sem við hefðum viljað láta fara betur. Í þessum málum Heidelberg er bara fullt af upplýsingum sem hafa komið fram í öllum skýrslum og umhverfismati og fleiru sem við höfum verið að reyna að vekja athygli á einfaldlega af því við teljum það vera okkar skyldu. Mér þótti stundum skrýtið hvað það mætti oft mikilli andstöðu að við værum að draga fram það sem kemur fram í þessum skýrslum og vildum ræða. En þetta hefur verið mjög lærdómsríkt og ég vona innilega að þeir sem verða í kjöri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar muni hafa það að markmiði að hafa góða samvinnu því ég held að það ætti að vera mjög auðvelt. Einnig að bera virðingu fyrir sjónarmiðum hvers annars og vera í betri samskiptum við íbúa. Mér finnst til dæmis alveg til fyrirmyndar það sem er að gerast núna í Hveragerði þar sem bæjarstjórinn býður upp á opið samtal mánaðarlega um málefni sveitarfélagsins. Mér finnst að íbúar eigi að hafa miklu meiri aðgang án þess að þurfa að bera sig eftir því beinlínis. Við eigum að opna betur á það sem kjörnir fulltrúar að vera í meira og virkara samtali við íbúana sem við erum í vinnu fyrir. Þannig að þessi mál hafa verið mjög áberandi á þessu ári sem svo auðvitað endaði á allt annan hátt en ég sá fyrir mér þegar ég hlaut kjör til alþingis og sit núna þar sem einn af fulltrúum fyrir fólkið í landinu. Ég lít líka svo á að þar sé ég líka fulltrúi fyrir framtíðarkynslóðir. Við höfum það verkefni að passa upp á landið og taka skynsamlegar ákvarðanir bæði fyrir fólkið sem býr hérna núna og fyrir þau sem erfa skulu land eins og segir í einu lagi.
Ég hef einnig unnið að menningarmálum í Hörpu sem hefur verið ótrúlega gæfuríkt og gefandi starf. Ég hef í starfi mínu þar verið í samstarfi við annað fólk sem vinnur í tónlistarhúsum í Evrópu. Ég hef farið á reglulega fundi Samtaka evrópskra tónlistarhúsa og hefur mér fundist alveg magnað að upplifa hvað fólki finnst mikið kraftaverk að við, þessi litla þjóð eigum tónlistarhús á heimsmælikvarða, sem Harpa vissulega er. Það er búið að vera algjör heiður að fá að starfa í því að búa til viðburði og hafa áhrif á það hvernig dagskrárstefna Hörpu birtist en ég var verkefnastjóri dagskrárgerðar. Ég vann bæði að innlendri dagskrárgerð og eins að því að flytja til landsins fyrir hönd Hörpu erlenda viðburði. Í fyrra var það sinfóníuhljómsveitin Bamberg Symphony frá Þýskalandi og fjöllistahópurinn Kalabanté frá Gíneu í Afríku. Þannig að þetta er búið að vera mjög fjölbreytt og skemmtilegt.
Það stendur líka upp úr að ég varð fertug á árinu. Það var alveg ótrúlega gaman að halda veisluna í garðinum heima. Mér fannst eitthvað mikilvægt að halda þetta heima og þar sem að húsið dugði ekki til þá slógum við upp stóru tjaldi úti í garði og ég eldaði mat. Ég elska að gefa fólki að borða og þess vegna lagði ég mikinn metnað í að elda mat og ég vildi hafa hann aðeins svona öðruvísi, eitthvað sem fólk fengi ekki á hverjum degi. Ég bauð upp á austurlenskt-Miðjarðarhafsfusion. Það var ótrúlega gaman og Tómas sá um að engum leiddist því tónlistin sem var boðið upp á í veislunni var alveg á heimsmælikvarða með honum og hæfileikaríku vinum okkar. Það var eitthvað alveg magnað að fá svona mikið af góðu fólki, vinum manns og samstarfsfólki til að koma og gleðjast saman eina kvöldstund. Ég mæli eindregið með að fólk haldi upp á öll þau tímamót sem er hægt að halda upp á því þetta eru stundirnar sem maður man eftir. Þetta var alveg dýrðlegt og ég hlakka strax til að verða fimmtug.”
Hvað gerir þú í frístundum þínum?
,,Ég elska að elda mat þegar ég hef tímann í það. Þá nostra ég svoleiðis við það og oftast er ég þá að elda eitthvað sem ég hef ekki gert áður. Mér finnst gaman að gera tilraunir í eldhúsinu. Svo elska ég að hitta vini mína og eiga með þeim góðar stundir. Svo er eitt markmið sem ég set mér eiginlega á hverjum áramótum og það er að byrja að ganga á fjöll. Ég er ekki alveg byrjuð á því ennþá en ég fer hins vegar reglulega út í fjöru, við vitann eða í Skötubótina og mér finnst eiginlega hvergi betra að hreinsa hugann og hugsa og eiga samtal við sjálfa mig og kosmósið.
Mér finnst líka mjög gaman að ferðast, bæði innanlands og utan. Ég var einmitt í Vestmannaeyjum um helgina og þar er viðburður, Þrettándinn, sem mér finnst vera svo ótrúlega fallegt samfélagsverkefni. Minnti mig pínu á Þollóween. Þetta er áratugagamall viðburður og þarna tekur nánast allt samfélagið þátt. Það er verið að búa til búninga og það þarf ótrúlega marga til að manna alla þessa búninga, hvort sem það eru tröll, álfar eða sveinkarnir. Svo eru flugeldasýningingar út um allan bæ og búið að skreyta vagna. Fólk safnast saman og er mikið um að brottfluttir komi og njóti skemmtunarinnar ár eftir ár. Það virðast vera miklar hefðir í kringum þetta hjá rótgrónu Eyjafólki. Þetta finnst mér vera svo fallegt, þegar fólk sameinast um að hafa gaman og leggja sitt af mörkum. Svona ekta samfélagsverkefni. Við erum einmitt svo rík af þessu hér í Þorlákshöfn, bæði í íþróttastarfinu, lúðrasveitinni, kórunum, Þollóween, leikfélaginu og svo mætti áfram telja. Í þessu litla samfélagi er það eiginlega rannsóknarefni hvað er margt í gangi. Þetta sýnir hvað það er mikilvægt að styðja við menningu og tómstundastarf og hafa góða umgjörð utan um það.”
Hvernig leggst árið 2025 í þig?
,,Nú er ég bara mjög spennt fyrir þessu nýja starfi á alþingi og ég er ákaflega stolt af formanni Samfylkingarinnar fyrir það hvernig hún er að vinna hlutina. Þetta var í raun auðveld ákvörðun þegar leitað var til mín um að fara í framboð fyrir Samfylkinguna vegna þess að ég dáist algjörlega að því hvernig Samfylkingin hefur unnið síðastliðin ár með því að fara um landið og eiga í þessu virka samtali við fólkið í landinu og það skipti engu hvort það væru tveir á fundunum eða sjötíu, það voru allir fundir jafn mikilvægir. Ég hef sjálf verið á nokkrum slíkum fundum og mér finnst þetta vera lýðræði í sinni tærustu mynd, að leggja sig fram við að fara út og hlusta á fólkið í landinu. Þannig að stefna Samfylkingarinnar sem birtist þarna fyrir kosningar var í raun stefna þjóðarinnar því þetta var bara akkúrat það sem fæddist úr þessum samtölum. Ég aðhyllist svona vinnubrögð og samsama mig við jafnaðarstefnu Samfylkingarinnar. Ég er mjög spennt að fara að vinna með þessum góða hópi sem var kjörinn fyrir Samfylkinguna. Ég er svona aðeins búin að kynnast þeim og þetta er fólk sem kemur úr mjög mismunandi áttum, allt saman með gríðarlega mikla reynslu, sumir með reynslu af alþingi, aðrir með reynslu úr öðrum störfum. Mín reynsla er að maður lærir svo mikið af fólki sem maður vinnur með hverju sinni. Ég veit að þetta á eftir að vera mjög gefandi tími. Verkefnin eiga eftir að vera mörg og örugglega mjög krefjandi en ég held að það verði líka mjög skemmtilegt.”
Eitthvað að lokum?
,,Mig langar að hvetja fólk til að láta samfélagið sig varða og hugsa með sér: ,,Hvernig get ég lagt mitt af mörkum bæði þegar kemur að sjálfboðaliðastarfi og eins samfélagsþátttöku?“ Öll höfum við einhverjar skoðanir á samfélaginu sem við búum í og ég held að það væri bara mjög gott núna þegar sveitarstjórnarkosningar eru á næsta leyti að hugsa með sér: ,,Er ég í stöðu til að geta lagt mitt af mörkum? Vil ég vinna að því að gera bæinn minn betri?” Þó þetta hafi oft verið krefjandi fyrir mig að standa í stafni í þessari baráttu sem við höfum þurft að halda úti í þeim málum sem hafa verið í umræðunni þá er þetta samt ótrúlega gefandi. Maður finnur alveg að maður er að gera gagn og uppsker ríkulega. Við þurfum að hafa gott fólk í bæjarstjórnarmálunum og hér í Ölfusi stendur sveitarfélagið vel sem er ekki alltaf raunin annars staðar. Það yrði gæfa fyrir sveitarfélagið ef meira samstarf ríkti meðal þeirra sem halda um stjórntaumana og að fólk gæti talað meira og betur saman og virt skoðanir annarra. Einnig að samtal við íbúa yrði meira.
Ég þakka fyrir útnefninguna og traustið sem mér hefur verið sýnt bæði í sveitarstjórnarmálum og til allra þeirra sem treystu mér til að starfa á Alþingi. Ég ætla að halda áfram að vinna vel fyrir fólkið í landinu og með mínu fólki hér í Íbúalistanum. Þar er frábært fólk sem tekur við af mér. Takk fyrir mig.”
Segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður og Ölfusingur ársins 2024. Hafnarfréttir óska henni til hamingju og alls hins besta á komandi ári.