Síðastliðna helgi voru haldin þorrablót bæði á Borg í Grímsnesi og í Versölum í Þorlákshöfn. Í kjölfarið fóru að berast tilkynningar frá gestum blótanna um veikindi sem lýstu sér aðallega í niðurgangi og miklum kviðverkjum en einnig uppköstum og hita. Alls bárust tilkynningar um veikindi frá 140 gestum.
Sýnataka frá nokkrum gestum sem veiktust sem og úr matvælum, bæði afgöngum og úr óopnuðum umbúðum leiddi í ljós að um væri að ræða sýkingu af völdum E. coli og/eða Baccillus cereus baktería. Fram kemur á vef Matvælastofnunar að bæði svína- og sviðasulta var menguð af Baccillus cereus og svínasultan þar að auki af E. coli. Bendir allt til þess að maturinn hafi staðið í töluverðan tíma án viðunandi kælingar og bakteríurnar hafa þannig getað fjölgað sér umtalsvert.
Enga mengun var að finna í matvælum í óopnuðum umbúðum. Það bendir því allt til þess að kælikeðja matvælanna hafi rofnað og meðferð þeirra hafi því verið verulega ábótavant hjá Veisluþjónustu Suðurlands sem sá um matinn.
Þar sem ekki var hægt að taka sýni af t.d. kartöflum og uppstúfi (þar sem engir afgangar voru af því) sem marga grunaði að væri orsakavaldurinn liggur ekki alveg fyrir hvar gerlarnir áttu upptök sín. Sennilega er um krosssmit að ræða.
Á vef Matvælastofnunar kemur eftirfarandi fram um eðli bakteríanna:
,,E. coli-stofn sem getur valdið iðrasýkingum greindist í þeim saursýnum sem fengust til rannsókna. Bacillus cereus getur myndað eitur í matvælunum og eitrið veldur einkennum matareitrunar, sé það innbyrt. Ekki er unnt að leita að eitrinu í saursýnunum og því ekki hægt að segja með vissu hver orsakavaldurinn er. Ekki greindist nóróveira í sýnunum. Að gefnu tilefni skal tekið fram að til eru margir mismunandi stofnar E. coli og er hér um annan stofn að ræða en þann sem greindist í hópsýkingu á leikskóla af völdum STEC (shiga-toxin myndandi E. coli) á síðasta ári.
Stýrihópur um rannsókn hópsýkingarinnar vill árétta að hlaðborðum fylgir áhætta. Algengar orsakir matarborinna sjúkdóma eru skortur á hreinlæti við meðferð matvæla og rangt hitastig sem getur orðið til þess að örverur ná sér á strik í matvælum. Heitur matur á að vera við 60 °C að lágmarki. Matvæli sem bera á fram kæld skal geyma í kæli (0-4 °C) þar til kemur að framreiðslu. Mikilvægt er að undirbúningsaðstaða sé fullnægjandi, að gott innra eftirlit sé til staðar og að handþvottaaðstaða sé viðunandi. Reglulega þarf að skipta um áhöld og ekki má endurnýta matvæli sem hafa verið frammi á borðum. Sjá nánar leiðbeiningar um hlaðborð á vef Matvælastofnunar.“
Ennfremur kemur fram í fréttinni að við ,,fyrstu eftirlitsheimsókn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands í Veisluþjónustu Suðurlands var alvarlegt frávik skráð þar sem starfsemin var án starfsleyfis. Einnig var aðstaða til handþvotta ófullnægjandi í eldhúsi. Heilbrigðiseftirlitið fór yfir verkferla með veisluþjónustunni og mun fylgja eftir að úrbætur verði gerðar.“
Enn er unnið úr gögnum vegna málsins en skýrsla verður birt á næstunni.