Enn af landfyllingu í kverk við hafnargarð við Þorlákshöfn

-markmiðið er og verður áfram að gæta heildarhagsmuna

Allt þar til að núverandi bæjarstjórn undir forystu D lista gerði þar breytingu á, var það stefna bæjarstjórnar að byggja umfangsmikla hafnargarða sem hefðu haft mikil áhrif á allt umhverfi hafnarinnar. Til grundvallar þeirrar hugmyndar var að byggja hér álver.

Þessi mynd sýnir þær hugmyndir og það skipulag sem var í gildi allt þar til bæjarstjórn, undir stjórn D lista, hóf vinnu við nýtt aðalskipulag og núverandi bæjarstjórn, einnig undir stjórn D lista, breytti um áherslur.

Ekki þarf að efast um að hefði verið unnið eftir þessari samþykkt sem gilti frá 2010 til 2023 þá hefði tækifæri til útivistar bæði sunnan og norðan hafnar breyst verulega mikið.

Í stað þessara hugmynda ákvað meirihluti D lista, í góðu samstarfi við þann minnihluta sem hér starfaði frá 2018 til 2022, að skala niður umfang framkvæmda.  Núgildandi aðalskipulag má sjá á myndinni hér að neðan. Inn á hana hafa verið teiknaðir þeir garðar sem heimilt var að byggja allt þar til í vor að nýtt aðalskipulag tók gildi (litaðir rauðir):

Við framkvæmdir tengdar þessari breytingu kom í ljós að þörf væri á auknu athafnasvæði til að þjónusta nýjan viðlegukant sem unnið er að. Samhliða lá fyrir sá möguleiki að færa þangað dýpkunarefni sem var að falla til og draga þannig úr kolefnisspori framkvæmdarinnar og auka hagkvæmni hennar, sem sagt draga úr kostnaði.  Málið var upphaflega kynnt í framkvæmda- og hafnarnefnd (Fundargerðir | Sveitarfélagið Ölfus (olfus.is)) þar sem því var vísað í skipulagsferil án mótatkvæða. Umhverfis- og skipulagsnefnd afgreiddi málið einnig frá sér einróma og samþykkti að skipulagsfulltrúa yrði falið að auglýsa tillöguna (Fundargerðir | Sveitarfélagið Ölfus (olfus.is)).  Það var svo staðfest af bæjarráði – enn og aftur án mótatkvæða eða bókunar (Fundargerðir | Sveitarfélagið Ölfus (olfus.is)). Málið hófst því fyrir rétt tæpum tveimur árum. Síðan þá hefur langt og vandað ferli átt sér stað sem nú er lokið með ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki sé þörf á umhverfismati.

Margir sem tjá sig um málið virðast ekki vera þess meðvitaðir að á stórstreymisfjöru er landfyllingin á þurru: 

Umrædd landfylling er í fjöruborðinu og mun nýtast sem athafnasvæði við nýjan viðlegukant sem verið er að ljúka framkvæmdum við.

Í minnsblaði hafnarverkfræðings var eftirfarandi álit veitt:

„Áhrif landfyllingar á öldufar sunnan við útsýnispall eru engin. Endurkast landfyllingar er óverulegt vegna grjótgarðs. Endurkastið af sjóvörninni endurkastast í átt að Suðurvarargarði en ekki til baka.  Aldan mun halda áfram að hlaðast upp á kúlunni eins og hún hefur gert í aldanna rás brimbrettaiðkendum til ánægju.  Aldan gerir sér enga grein fyrir hvað er framundan og þannig að fullyrðingar um að verið sé að skemma eitthvað standast enga skoðun.„

Þegar deilt er um hagsmuni verður sannleikurinn oft fyrsta fórnarlambið. Vegna þessa viljum við taka eftirfarandi fram:

  1. Samfélagið í Þorlákshöfn hefur aldrei skipulagt eða samþykkt svæði til útivistar í sjónum í kringum höfnina. Þvert á móti hefur ætíð legið fyrir sá vilji samfélagsins að stækka höfnina enn frekar.
  1. Nýjasti hafnarkantur hafnarinnar er við suðurenda hennar. Þar er hægt að taka á móti rúmlega 200 m löngum skipum. Það er fráleitt að hægt sé að vera með athafnasvæði fyrir viðlegukant sem liggur syðst á hafnarsvæðinu fyrir norðan höfnina. Slíkt myndi gera viðlegukantinn og þar með fjárfestinguna lítt nýtanlega. Athafnasvæði hafnar þarf að vera við hafnarkant þar sem skipið kemur að.
  1. Gerð hefur verið viljayfirlýsing við TorCargo um nýtingu hins nýja hafnarkants og þar með talið athafnasvæðið í kringum hann. Í viljayfirlýsingu við félagið segir m.a. „Þar sem um er að ræða gámaflutninga er afar mikilvægt að athafnasvæði liggi að, eða sem næst hafnarkanti.“  Vegna fullyrðinga Brimbrettafélagsins um að TorCargo hafi fullyrt að þeir þurfi ekki á landfyllingunni að halda fyrir starfsemi sína þá höfum við kallað eftir upplýsingum þar að lútandi.  Fyrir liggur, eins og viljayfirlýsingin ber með sér, að þeir telja þetta svæði afar mikilvægt fyrir þeirra starfsemi. Ef að svo væri ekki er þegar vitað af áhuga annarra til nýtingar hennar með hagsmuni hafnarinnar og heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.
  1. Ekki stendur til að nýta svæðið í kringum vitann fyrir höfnina. Allt tal um að skerða eigi tækifæri til útivistar á þessu landsvæði er úr lausu lofti gripið. Þvert á móti er vilji til að skipuleggja nýtt útivistarsvæði með góðum útsýnispalli nær vitanum, göngustígum að honum og fl. Ef vilji er til að vera þar með kaffihús, hótel eða annað eru bæjaryfirvöld sannarlega til í að greiða leið fyrir því. Fjárfestar eða aðrir áhugasamir hafa þó enn ekki gefið sig fram. 

Myndin hér að neðan er úr rúmlega árs gömlum gögnum og sýnir hvernig svæðið í kringum vitann er hugsað og tengingu þess við göngu- og hjólastíga bæjarins:

Þess má geta að sennilega væri búið að ljúka hönnun svæðisins ef ekki hefðu komið til tafir vegna landfyllingar.

  • Kostnaður við tafir á landfyllingu vegna andstöðu brimbrettafélagsins telur í milljónum, jafnvel tugum. Við lítum á það sem kostnað við lýðræðið og virðum rétt fólks til að sýna andstöðu. Við berum um leið virðingu fyrir því að kostnaðurinn lendir eingöngu á bæjarbúum og viljum því samhliða gæta að þeirri ábyrgð. Málið hefur fengið ítarlega umfjöllun og farið í gegnum öll stjórnsýslustig. Er nú svo komið að gefið hefur verið út framkvæmdaleyfi að undangenginni umfjöllun og ákvörðun Skipulagsstofnunar um að gera ekki kröfu um umhverfismat. Slíkt væri enda fordæmalaust.
  • Við biðjum þá sem mótmæla vilja framkvæmdum að gæta að eigin öryggi. Svæðið er í dag athafnasvæði þar sem á ferðinni eru stórvirkar vinnuvélar.
  • Málið verður unnið áfram í samræmi við lög og reglur sem um framkvæmdir sem þessar gilda. Áfram verður vandað til verka.

Fylgt úr hlaði

Umhverfis- og skipulagmál eru ætíð viðkvæm og mikilvægt að þar sé vandað til verka. Hvað sem líður háværum röddum hagsmunahópa þá þurfa skipulagsyfirvöld að taka tilliti til margskonar hagsmuna, bæði þegar litið er til skemmri og lengri tíma. Ólíkir hagsmunir kunna að takast á og þá er sérstaklega mikilvægt að vanda til verka og huga að meðalhófi. Sem sagt að ganga ekki lengra í neina átt en nauðsynlegt er til að ná settu marki sem ætíð eru heildarhagsmunir íbúa. Það hefur verið markmið meirihluta D lista í þessu máli og svo verður áfram.

Gestur Þór Kristjánsson – forseti bæjarstjórnar

Erla Sif Markúsdóttir – bæjarfulltrúi og nefndarmaður í framkvæmda- og hafnarnefnd

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir – bæjarfulltrúi og fulltrúi í bæjarráði

Grétar Ingi Erlendsson – formaður bæjarráðs og nefndarmaður í framkvæmda- og hafnarnefnd

Guðlaug Einarsdóttir – varabæjarfulltrúi

Guðbergur Kristjánsson – formaður framkvæmda- og hafnarnefndar

Geir Höskuldsson – formaður umhverfis- og skipulagsnefndar