Hraunheimar – nýr leikskóli með leik og læsi í forgrunni

Í september næstkomandi opnar nýr leikskóli í Þorlákshöfn sem mun bera nafnið Hraunheimar. Hraunheimar er fjögurra deilda leikskóli fyrir börn á aldrinum 18 mánaða til 6 ára. Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir hefur verið ráðin leikskólastjóri og vinnur að því að byggja upp skapandi og styðjandi umhverfi fyrir börn og starfsfólk.

Hrafnhildur Hlín er leikskólakennari og hefur unnið á fjölmörgum leikskólum bæði hérlendis sem og í Danmörku og er því með víðtæka reynslu af fjölbreyttu leikskólastarfi. Síðastliðin 3 ár hefur hún unnið sem hegðunarráðgjafi og hefur verið ráðgefandi, bæði fyrir foreldra og starfsmenn leik- og grunnskóla, er varðar hegðun barna, námsumhverfi þeirra og uppeldi. Hún hefur víðtæka reynslu af börnum með ADHD og börnum á einhverfurófinu og þekkir mikilvægi þess að skapa umhverfi þar sem öll börn fá að blómstra.

Læsi í leikskóla – að lesa heiminn í gegnum leik

Hraunheimar verður heilsueflandi leikskóli sem leggur áherslu á læsi í víðu samhengi. Orðið læsi vísar ekki eingöngu til grunnfærni í lestri og ritun heldur til margþættrar hæfni einstaklings til að skilja, túlka og tjá sig á ýmsa vegu í mismunandi aðstæðum. Í grunninn er læsi í víðu samhengi hæfnin til að takast á við daglegt líf, mynda sér skoðanir og taka ákvarðanir á ábyrgan hátt með því að skilja og nýta sér upplýsingar í mismunandi samhengi. Læsisþættir sem unnið verður út frá í öllu starfi með börnunum verða: Félags- og tilfinningalæsi, umhverfis- og samfélagslæsi, stafa- og stærðfræðilæsi og heilsulæsi.

Leikurinn er námsleið barna á leikskólaaldri og fer því allt nám í gegnum leik. Í leiknum þjálfast allir þættir læsis þar sem börnin fá tækifæri til að æfa sig í samskiptum og félagslegum aðstæðum. Hlutverk kennarans er að skapa umhverfi og aðstæður sem hæfir þroska og áhuga barnanna og veita stuðning þegar þörf er á.

Útikennsla verður stór þáttur í starfinu og leggur leikskólastjóri mikla áherslu á að útbúa útisvæði sem býður upp á fjölbreytta möguleika til náms. Lóðin er unnin í góðu samstarfi við fagaðila sem hafa mikla þekkingu og reynslu á hönnun slíkra svæða. Markmiðið er að verða Grænfánaleikskóli en grænfáninn gefur stofnunum góðan ramma til að vinna eftir til að efla til að mynda umhverfis- og samfélagslæsi. Horft er til mikilvægi hreyfingar og verður salur leikskólans velútbúinn til fjölbreyttra hreyfistunda innandyra. Eins er venja að börn í Þorlákshöfn geti æft íþróttir frá 4 ára aldri og verður allt kapp lagt í að sú hefð haldi sig þótt nýr leikskóli sé í þeim mun meiri fjarlægð frá íþróttahúsi bæjarins.

Faglegt læsi – að byggja upp lærdómssamfélag

Í Hraunheimum er teymisvinna lykilþáttur í þróun leikskólans, þar sem markmiðið er að skapa öflugt lærdómssamfélag og efla faglegt læsi starfsmanna. Í upphafi hvers skólaárs mun starfsfólkið mynda fjögur teymi, þar sem hver deild á fulltrúa. Teymin munu funda mánaðarlega þar sem sett eru markmið, deilt reynslu og rýnt í það hvernig hægt sé að þróa kennsluhætti og efla heildrænt læsi barnanna í gegnum leik. Með markvissri samvinnu fá kennarar tækifæri til faglegs þroska og nýsköpunar í starfi. Starfsmenn fá einnig stuðning hvert af öðru og ákveðið frelsi og traust til að móta starfið innan stefnunnar.

Með því að skapa öflugt lærdómssamfélag meðal kennara og starfsfólks verður leikskólinn lifandi vettvangur þróunar, þar sem nýjar hugmyndir eru prófaðar og starfsaðferðir endurmetnar reglulega. Með góðri samvinnu að sameiginlegum markmiðum, skapast öflugt starfsumhverfi þar sem bæði börn og fullorðnir vaxa og dafna.

Framtíðarsýn – Að byggja grunn fyrir lífið sjálft

Hraunheimar leggja grunn að framtíð barna með því að efla þau í gegnum leik, samskipti og skapandi nám í samvinnu við forráðamenn. Markmiðið er ekki aðeins að undirbúa þau fyrir áframhaldandi skólagöngu, heldur fyrir allt sem lífið hefur upp á að bjóða. Góð félags- og samskiptafærni er lykillinn að farsælu lífi, bæði í skóla, starfi og persónulegum samböndum. Með því að styðja börnin í að læra að tjá sig, hlusta, vinna með öðrum og setja sig í spor annarra, eru þau betur í stakk búin til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

Miðvikudaginn 26. febrúar kl 17:00 mun leikskólastjóri vera með kynningu á nýjum leikskóla. Kynningin er opin fyrir alla og verður haldin í Versölum, Hafnarbergi 1 í Þorlákshöfn.