Verndun öldunnar snýr að stórkostlegum tækifærum

Málflutningur meirihlutans gagnvart umdeildri framkvæmd um landfyllingu við Suðurvarargarð hefur verið meira en lítið furðulegur. Endurtekið er því stillt upp sem svo að þróun hafnar og verndun öldunnar sé ósamrýmanlegt. Annað í boði, ekki hitt. Verndun öldunnar er umfangsmikið viðfangsefni og snýr ekki einungis að því að vernda tómstundaiðkun sístækkandi hóps. Verndun öldunnar snýr að stórkostlegum tækifærum. Tækifærum sveitarfélagsins til stórsóknar á sviði ferðaþjónustu, útivistar og lífsgæða fyrir íbúa sveitarfélagsins. Þessi tækifæri komu t.a.m. skýrt fram á nýlegu málþingi Ölfus Cluster um „Áfangastaðinn Ölfus“ þar sem áhersla var lögð á að markaðssetja sveitarfélagið sem áfangastað fyrir útivistar- og afþreyingarferðaþjónustu með áherslu á bætt lífskjör fyrir íbúa svæðisins og um leið vöxt atvinnulífsins. Þar kom aldan fyrir í nær hverju erindi. Fjallað var um hina „köldu Hawaii“, svæði á N-Jótlandi sem byggðist bókstaflega upp á forsendum útivistar og brimbrettaiðkunar. Fleiri tækifæri fylgdu og er svæðið vinsæll áfangastaður ferðamanna með blómlegu mannlífi og fjölbreyttri þjónustu. 

Landfylling er ekki forsenda þróun hafnar

Umrædd landfylling er ekki forsenda þróun hafnar. Upphafleg þróun nýrrar Suðurvararbryggju gerði ekki ráð fyrir þessari landfyllingu. Fyrsti rökstuðningur fyrir henni var sá að fjárhagslegur sparnaður fælist í því að afsetja uppúrtekt við nýju Suðurvararbryggju á þessum stað. Allur annar rökstuðningur hefur orðið til síðar. Til dæmis hefur því verið haldið fram að landfyllingin sé forsenda fyrir því að Thorship hefji starfsemi í sveitarfélaginu. Það fær vart staðist enda var samningur gerður við fyrirtækið áður en framkvæmdaleyfi var samþykkt, áður en lá ljóst fyrir hvort framkvæmdin krefðist umhverfismats og eftir atvikum hverjar niðurstöður þess mats yrðu. Framkvæmdin var því ekki í hendi og er það ekki enn.

Umdeild framkvæmd

Í nýlegri grein D-lista er því lýst hvernig framkvæmdin hafi farið í gegnum langt skipulagsferli án mótatkvæða eða bókana. Þar eru svo handvalin dæmi málinu til stuðnings. Heiðarlegra væri að segja allan sannleikann. Framkvæmdin hefur verið afar umdeild og hefur henni verið mótmælt, um hana bókað, fulltrúar setið hjá og greitt atkvæði gegn henni. Það kemur fram í fundargerðum framkvæmdar- og hafnarnefndar hérhér og hér, skipulags- og umhverfisnefndar hérhérhérhér og hér, og bæjarstjórnar hérhérhérhérhér og hér. Þessu til viðbótar mætti nefna hvernig meirihlutinn hefur hundsað rúmlega 11.000 manna undirskriftarlista þar sem lagst er gegn eyðileggingu öldunnar með landfyllingu, hann hefur hundsað sérfræðiálit sem byggja á sérfræðiþekkingu um forsendur til brimbrettaiðkunar og hundsað tilraunir til málamiðlunar sem gætir að hagsmunum beggja.

Veljum fjölbreytta uppbyggingu og vöxt hafnar

Sveitarfélagið getur enn tekið ábyrgð á því að vernda einstaka eiginleika svæðisins. Styrkt tengsl milli ferðaþjónustu og náttúruverndar og sótt þau tækifæri sem sannarlega eru til staðar. Sveitarfélagið getur nýtt einstakar aðstæður svæðisins við markaðssetningu og gert Ölfus að spennandi áfangastað fyrir innlenda og erlenda ferðamenn. Þetta allt er hægt að gera á sama tíma og lögð er áhersla á þróun, uppbyggingu og vöxt hafnar.  

Berglind Friðriksdóttir, bæjarfulltrúi H-lista