Söngsveit Hveragerðis og Söngfélag Þorlákshafnar leiða saman hesta sína nú á vordögum þar sem kórarnir stefna á sameiginlega ferð til Ítalíu í sumar. Þar munu kórarnir taka þátt í alþjóðlegu kóramóti sem haldið verður í nokkrum kirkjum í nágrenni við Veróna en alls verður sungið á fernum tónleikum auk annarra viðburða í tengslum við mótið. Einnig verður sungið í messu í Feneyjum og ekki er ólíklegt að brostið verði í söng við fleiri aðstæður.
Á dagskrá kóranna verða íslensk og erlend verk, mörg á þjóðlegum en önnur á kirkjulegum nótum og verða verkin sungin án undirleiks. Í farteskinu er einnig léttara efni sem hægt er að grípa til þar sem aðstæður leyfa. Kóramótið stendur í fjóra daga en ferðin alls í viku, svo kórfélagar og föruneyti þeirra fá einnig að njóta ítalskrar náttúrufegurðar, menningar, matar og gestrisni í Verona, við Garda-vatnið og í Feneyjum.
Í aðdraganda ferðarinnar ætla kórarnir að halda sameiginlega vortónleika þar sem efnisskráin verður flutt, bæði það sem sungið verður á kóramótinu en einnig léttara efni eins og bítlalög og íslenskar ballöður! Á vortónleikunum syngja kórarnir flest lögin saman en auk þess nokkur lög hvor í sínu lagi. Tónleikarnir verða haldnir í Hveragerðiskirkju þriðjudaginn 27. maí og í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn degi síðar, miðvikudaginn 28. maí og hefjast þeir kl. 20 bæði kvöldin. Aðgangseyrir er kr. 3000 og eru miðar seldir við innganginn.
Stjórnandi Söngsveitar Hveragerðis er Margrét Stefánsdóttir en Örlygur Benediktsson stjórnar Söngfélagi Þorlákshafnar. Þessir kórar hafa báðir starfað í áratugi og hafa oft átt í samstarfi í gegnum tíðina þó þetta verkefni sé það stærsta sem farið hefur verið í sameiginlega. Er það von okkar að Sunnlendingar sjái sér fært að koma á vortónleikana en þeir eru mikilvægur undirbúningur fyrir kóramótið á Ítalíu.
Sigrún Símonardóttir formaður Söngsveitar Hveragerðis
Sigþrúður Harðardóttir formaður Söngfélags Þorlákshafnar