Bæjarhátíðin Hamingjan við hafið hófst í gær með sýningu Leikhópsins Lottu á Hróa hetti. Sýningin fór fram í íþróttahúsinu sökum veðurs og vakti mikla lukku áhorfenda á öllum aldri.
Dagskrá hátíðarinnar er glæsileg að vanda en verkefnastjóri hennar í ár er Sigurgeir Skafti Flosason. Eitthvað er um að vera alla vikuna en hátíðin stendur frá 5.-9. ágúst. Meðal dagskrárliða má nefna sundlaugarpartí fyrir 10 ára og eldri, harmónikkuball á Níunni, opna hljómsveitaræfingu, hina árlegu litaskrúðgöngu á föstudeginum og stórglæsilega barna- og ungmennadagskrá á laugardeginum að ógleymdum tónlistarveislum bæði kvöldin í tjaldinu í Skrúðgarðinum. Dagskrána í heild má sjá hér fyrir neðan en einnig er allar upplýsingar að finna Facebook- og Instagramsíðum Hamingjunnar við hafið.
