Höfnin í Þorlákshöfn hefur áratugum saman verið burðarás samfélagsins. Höfnin hefur mótað atvinnulíf, menningu og sjálfsmynd bæjarbúa í áratugi og gegnir lykilhlutverki hvað varðar atvinnusköpun og framtíðaruppbyggingu sveitarfélagsins. Það er enda svo að íbúaþróun og uppbygging atvinnulífs hefur haldist í hendur við hafnarbætur í gegnum áratugina.
Lífæð
Frá upphafi hefur hafnarstarfsemin í Þorlákshöfn verið nátengd sjávarútvegi. Í gegnum hana fer afli fiskiskipa, vinnsla og útflutningur á sjávarafurðum sem skapað hefur bæði störf og verðmæti. Hlutverk hafnarinnar hefur þó breyst heilmikið á síðustu árum. Í dag er hafnarstarfsemin fjölbreytt og má þar nefna inn- og útflutning á vörum, jarðefnaútflutning, innflutning á áburði, fiskveiðar og þjónustu við seiðaflutninga. Margt annað mætti til telja. Fyrir marga íbúa er höfnin lífsviðurværi, beint eða óbeint. Þannig verður hún hjartað í atvinnulífinu og heldur uppi fjölskyldum sem byggja framtíð sína í bænum.
Framtíðarmöguleikar
Fram undan eru fjölmörg tækifæri sem tengjast áframhaldandi vexti hafnarinnar. Þau skapa möguleika bæði fyrir ný fyrirtæki og rótgróin til að efla starfsemi sína. Sífellt fleiri fyrirtæki horfa nú til Þorlákshafnar sem framtíðarstaðsetningar, þar sem höfnin gegnir lykilhlutverki. Sérstaklega má nefna uppbyggingu í landeldi á laxafurðum, vöxtur vöruflutninga og aukinn áhugi útferðafélaga. Allt kallar þetta á djörfung og framtíðarsýn öflugri innviði hafnarinnar. Það er því brýnt að halda áfram á sömu braut og tryggja að Þorlákshöfn verði í stakk búin að mæta þessari þróun.
Stórtæk áform
Á seinustu árum hefur höfnin tekið stakkaskiptum. Aldrei í sögunni hefur verið fjárfest meira en það er bara einn þeirra áfanga sem stefnt er að. Sveitarfélagið hefur nýlega sótt um framlag til hafnarframkvæmda í samgönguáætlun ríkisins 2026–2030. Meginverkefnið er stækkun hafnarinnar til norðurs, í Skötubót, þar sem myndi rísa ný höfn með fjölbreytta möguleika. Þetta yrði stærsta og kostnaðarsamasta framkvæmd í sögu sveitarfélagsins.
Jafnframt er óskað eftir fjármagni til innri umbóta sem styrkja þjónustu við núverandi viðskiptavini. Þar má nefna að Smyril Line bætir við tveimur nýjum 190 metra skipum á næsta ári, sem krefjast öflugra innviða og hámarksöryggis fyrir sjófarendur.
Myndin hér fyrir neðan sýnir næstu stórsókn hafnarinnar.

Höfnin er meira en mannvirki
Þorlákshafnarhöfn er ekki aðeins mannvirki – hún er grunnur byggðar, atvinnu og framtíðar. Með stuðningi ríkisins verður hún áfram burðarás samfélagsins og mikilvægur hlekkur í samgöngum og verðmætasköpun á Íslandi. Fyrir íbúana er hún meira en mannvirki – hún er tákn um lífskraft, samstöðu og framtíðarmöguleika.
Grétar Ingi Erlendsson,
formaður Bæjarráðs