Á undanförnum árum hefur bæjarstjórn Ölfuss staðið saman um það að byggja upp hjúkrunarheimili í Þorlákshöfn. Þar hefur verið barist í mótbyr, enda höfðu forverar okkar í bæjarstjórn áður ákveðið að öll slík þjónusta fyrir Árnessýslu skyldi einungis fara fram á Selfossi.
Á fjölmörgum fundum sem við höfum átt með þingmönnum, ráðherrum og embættisfólki höfum við fengið þau svör að ekki væri tímabært að ræða hjúkrunarheimili í Þorlákshöfn og alltaf vísað í gamla samþykktina um Selfoss. Á meðan bíða um 800 manns eftir hjúkrunarrými á Íslandi, þar af 150 á spítala í svokölluðum „biðrýmum“ á göngum, í geymslum og öðrum óboðlegum aðstæðum. Spár segja að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum um 3.700 fyrir árið 2040, eða um 130%, til að mæta þörfinni. Á sama tíma eru eldri borgarar í hjúkrunarþörf hér í Þorlákshöfn fluttir hreppaflutningum til að fá lífsnauðsynlega þjónustu. Það er því augljóst að ekki er hægt að sitja með hendur í skauti.
Í ljósi þessarar grafalvarlegu stöðu og í góðri samstöðu bæjarstjórnar var ákveðið að horfa til samstarfs við einkaaðila. Til að rjúfa kyrrstöðuna var auglýst eftir samstarfsaðilum um fasteignaþróun og sérstaklega tekið fram að samhliða væri horft til þess að samstarfið myndi ná til byggingar hjúkrunarheimilis við Egilsbraut. Það var gert til að tryggja eldra fólki í okkar samfélagi nauðsynlega þjónustu. Niðurstaðan varð samstarf við Íslenskar fasteignir sem hafa mikla og trausta reynslu af byggingu og rekstri hjúkrunarheimila, meðal annars við Sóltún í Reykjavík.
Þegar þessum áfanga var náð brást þingmaður Samfylkingarinnar hins vegar við með hæðni og úthrópun. Hún vék að því að einkaaðilar væru þátttakendur í málinu og talaði um „glimmersprengju“ og „töfrabrögð“. Slíkt tal er ekki bara virðingarleysi við bæjarstjórn heldur fyrst og fremst við eldra fólk sem bíður eftir því að fá mannsæmandi þjónustu.
Við í bæjarstjórn Ölfuss erum stolt af samstöðu okkar og þeim áföngum sem náðst hafa. Við vitum að verkefnið er ekki fullunnið en við vitum líka að ef málið er dregið niður í pólitískar skotgrafir þá er tryggt að ekkert gerist. Því hvetjum við þingmenn kjördæmisins, sérstaklega þann sem hér býr, til að taka þátt í þeirri baráttu sem hér er sameiginleg í stað þess að vinna gegn henni.
Við munum ekki eyða tíma í orðaskak eða háðsglósur. Við ætlum að verja hagsmuni eldra fólks og tryggja að hjúkrunarheimili rísi í Þorlákshöfn. Þar liggja forgangsmálin, ekki í pólitísku karpi.
Gestur Þór Kristjánsson
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir
Grétar Ingi Erlendsson
Erla Sif Markúsdóttir.