Ölfus án sjónhverfinga pólitískra töframanna

Á dögunum kynnti sveitarfélagið Ölfus undir forystu Sjálfstæðisflokks að nýtt hjúkrunarheimili rísi í Þorlákshöfn. Mikið vildi ég að hér hefðu verið lögð fram sannindi því öll vitum við sem búum í Þorlákshöfn að það er langþráður draumur að fá hjúkrunarheimili á staðinn svo fólkið okkar, sem sum hver byggði bæinn upp frá grunni, geti fengið að eiga ævikvöldið í sínum heimabæ. 

Ens og öll þau sem stýra sveitarfélögum vita þá þarf hins vegar meira til heldur en samkomulag um úthlutun lóðar við fasteignafélag til þess að geta sagt að hjúkrunarheimili muni verða að veruleika. 

Samkomulagið sem kynnt var er við sama fasteignafélag og kynnti nýja glæsilega hótelbyggingu við golfvöllinn rétt fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar sem ekki sést tangur né tetur af. Þetta er einnig sama fasteignafélag og sveitarfélagið er búið að lofa að byggja upp hverfi sem rúmar íbúafjölda Eyrarbakka á grænum svæðum mitt á milli gamla hluta þorpsins og hafnarsvæðisins. Fasteignaverkefni sem hefur mætt mjög mikilli andstöðu íbúa, en í fyrrnefndri fréttatilkynningu þá segir að hjúkrunarheimilið sé „órjúfanlegur hluti“ af því. Eins og þetta lítur út fyrir mér, þá er hér verið að blása glimmeri í augu íbúa sem munu þá jafnvel fyrirgefa byggingu á þessu umdeilda hverfi, því þar er að rísa hjúkrunarheimili. 

Hjúkrunarheimili sem því miður er engin innistæða fyrir. 

Hjúkrunarheimili eru nefnilega fjármögnuð af ríkinu. Bæjarstjórnin í Ölfusi hefur ekki komið á samtali við þá ráðherra ríkisstjórnarinnar sem fara með öldrunarmál og hvorki er til staðar rekstrarsamningur né vilyrði fyrir hjúkrunarheimili. Áður en farið er af stað með uppbyggingu hjúkrunarheimila er nauðsynlegt að gera það í gegnum samning við ríkið enda er öll þjónustan á ábyrgð ríkisins. Það þarf að byrja á réttum enda og öll góð verkefni hefjast með samtali, ekki innihaldslausum fréttatilkynningum. 

Íbúar í Ölfusi sjá í gegnum svona sjónhverfingar. Þeim er mörgum hverjum farið að leiðast þessi innihaldslausu töfrabrögð. Það sem þeir þurfa að mínu mati eru heiðarleg stjórnvöld í stað galdrakarla. Stjórnvöld sem skilja gildi samvinnu og samtals. Stjórnvöld sem eru tilbúin til að hleypa íbúum að borðinu í mikilvægum ákvörðunum um framtíð sveitarfélagsins, eins og í skipulags- og atvinnumálum. Við þekkjum öll söguna af því hvernig íbúar kölluðu fram íbúakosningu um umdeilt verkefni, það var sannarlega ekki að frumkvæði meirihlutans. Minnihlutinn í bæjarstjórn hefur ítrekað kallað eftir því á þessu kjörtímabili að unnin verði atvinnustefna í góðu samtali við íbúa og aðra hagaðila. Nú eru 8 mánuðir eftir af kjörtímabilinu og enn hefur íbúum ekki verið boðið í það samtal. 

Draumurinn um hjúkrunarheimili í Þorlákshöfn verður örugglega að veruleika einhverntíman og mun ég leggja mitt að mörkum til að svo verði, en þessi framsetning er ekkert annað en blekking gagnvart íbúum í Ölfusi. 

Það er tilhlökkunarefni fyrir mig sem íbúa í sveitarfélaginu Ölfusi að kosningar séu á næsta leiti og að íbúum gefist þar kostur á að velja sér nýja stjórnendur fyrir þetta sameiginlega félag sem við eigum. Við eigum skilið betri vinnubrögð, við eigum skilið betri framkomu. 

Ása Berglind Hjálmarsdóttir