Ekki jafnt kynjahlutfall í fastanefndum sveitarfélagsins

ráðhúsiðKynjahlutfall í fastanefndum Sveitarfélagsins Ölfuss er ekki í samræmi við nýsamþykkta jafnréttisstefnu sveitarfélagsins né í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Í jafnréttisstefnu sveitarfélagsins, sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 25. febrúar 2016, kemur fram að markvisst skuli unnið að því að „jafna hlut kynja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélagsins. Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir, skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.“ Í stefnunni kemur fram að hafa skuli 2:3 skiptingu í fimm manna nefndum og 1:2 í þriggja manna nefndum.

Stefnan byggir á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétta kvenna og karla. Markmið þeirra laga er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Í lögunum kemur einnig fram sama ákvæði um að kynjahlutfall eigi að vera sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.

Ef aðalfulltrúar í fastanefndum Sveitarfélagsins Ölfuss eru skoðaðir þá sést að einungis í bæjarráði og í fræðslunefnd er kynjahlutfallið í samræmi við jafnréttisstefnuna.

Verst er staðan í hafnarstjórn en í henni eru bara karlar. Í fjallskilanefnd, íþrótta- og æskulýðsnefnd og skipulags- bygginga- og umhverfisnefnd eru fjórir karlar og einungis ein kona. Í menningarnefnd eru aftur á móti fjórar konur og einn karl.

nefndaskipan