Nú laust fyrir klukkan 15 í dag barst Brunavörnum Árnessýslu tilkynning um að gripaflutningabíll með 114 sláturgrísum hafi farið á hliðina við vegamót Þrengsla og Suðurlandsvegar. Ökumaður bílsins komst sjálfur úr bílnum og eru meiðsli hans minniháttar. Frá þessu er greint á Facebook síðu Brunavarna Árnessýslu.
Brunavarnir Árnessýslu, Sjúkraflutningar og Lögreglan á Suðurlandi ásamt Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og dýralækni frá Matvælastofnun eru á vettvangi og vinna að hreinsun. Einnig eru starfsmenn Stjörnugríss komnir á staðinn til að flytja grísina áfram.
„Þrengslavegur er ekki lokaður en ber að vara vegfarendur við því sem fyrir augu getur borið,“ segir í tilkynningunni.