Jónína Magnúsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarskólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn. Hún tekur við starfi Ólínu Þorleifsdóttur sem nú er skólastjóri skólans.
Jónína er í dag skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar og hefur hún verið í skólastjórnun frá árinu 1998 en hún var áður skólastjóri og aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Siglufjarðar. Þá var hún einnig skólafulltrúi Siglufjarðarbæjar í tvö skólaár. Hún er að auki með góða kennslureynslu en hún hóf störf við kennslu haustið 1987 og starfaði sem kennari við Snælandsskóla í Kópavogi og við Grunnskóla Siglufjarðar.
Jónína útskrifaðist með B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1987 auk þess sem hún lauk Diplóma Ed gráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórunun menntastofnana frá sama skóla árið 2005. Í vor lauk Jónína MCM meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst.
Jónína er fædd árið 1963 og er gift Ragnari Aðalsteinssyni. Þau eiga tvo uppkomna syni og eitt barnabarn.