Það verður paintball í skrúðgarðinum klukkan 16 í dag fyrir framhaldsskólanema.
Aðdragandi þessa er stuttur, en síðastliðið föstudagskvöld var komið fyrir lazertag braut fyrir krakka í 8-10. bekk í íþróttahúsinu og var mikil eftirspurn, þá sérstaklega frá framhaldsskólanemum að fá að vera með.
Til að koma á móts við óskir framhaldsskólanema, sem eins og flestum ætti að vera kunnugt um eru eins og stendur í verkfalli, þá var brugðið á það ráð að koma upp paintball velli í skrúðgarðinum.
,,Það var hrikalega gaman hjá okkur síðasta föstudagskvöld í lazertag og þetta var fljótt að spyrjast út meðal eldri krakka“, sagði Valur Rafn Halldórsson starfsmaður ungmennaráðs og forstöðumaður Svítunnar við greinarhöfund. ,,Þeir voru að hringja hálfgrátandi og biðja um að fá að vera með, nei kannski ekki alveg hálfgrátandi, en við fundum allavega fyrir miklum áhuga“.
Valur segir að ekki hafi verið hægt að leigja lazertag græjurnar þar sem uppbókað er langt fram í tímann. Þá hafi hann brugðið á það ráð að hringja í félaga sinn sem sér um að leigja út paintball græjur og ákveðið að nýta þetta frábæra veður sem úti hefur verið, og einnig þá staðreynd að framhaldsskólanemar eru í verkfalli, til að hafa þetta í miðri viku í stað helgar.
Fjörið hefst á slaginu 16:00 í okkar glæsilega skrúðgarði og er aðgangseyrir litlar 500 krónur.