Hrímgrund selur allar aflaheimildir sínar en skundar á ný mið

Fyrirtækið Hrímgrund sem er í eigu Þorvalds Garðarssonar og Guðbjargar Maríu Kristjánsdóttur hefur selt allar aflaheimildir sínar sem og bátinn Sæunni Sæmundsdóttur ÁR 60.

Þorvaldur hefur stundað sjómennsku og útgerðarþátttöku í Þorlákshöfn í um 45 ár en ástæða sölunnar er að hann var orðinn þreyttur á sjómennskunni og skrokkurinn var farinn að eldast.

Þau hjónin eru samt engan vegin hætt atvinnurekstri í Þorlákshöfn heldur ætla þau ásamt sonum sínum og fleira fólki að hefja uppbyggingu húsnæðis í Þorlákshöfn. Stefna þau á að auka starfsemi fyrirtækisins á nýjum vettvangi á næstu misserum.