baendagliman2014
Keppendur í mótslok.

Bændaglíma Golfklúbbs Þorlákshafnar var haldin síðastliðinn laugardag við fínustu aðstæður þar sem sigurliðið var lið bóndans Jóns Sigurmundssonar.

Góð mæting var í mótið sem var stórskemmtilegt. Þar sem bændaglíman er á léttari nótunum voru reglurnar með aðeins öðru sniði en kylfingar eiga að venjast. Á einni brautinni þurfti að slá upphafshöggið sitjandi í stól, hver leikmaður mátti kasta golfboltanum einu sinni í stað þess að slá, upphafshögg á fyrstu braut átti á slá með gamalli trékylfu og síðast en ekki síst þurfti að slá upphafshögg á einni brautinni með stunguskóflu.

Undirritaður átti ekki sinn besta dag og sannaðist það best á því að bestu höggin voru slegin með skóflu og sitjandi í stól. En sem betur fer var einn þaulreyndur með honum sem átti í langflestum tilfellum miklu betri högg.

Bændaglíman var virkilega vel heppnuð og á Golfklúbbur Þorlákshafnar heiður skilinn fyrir flott mót.