Bæjarráð hefur samþykkt að láta framkvæma stjórnsýsluúttekt í sveitarfélaginu og mun fyrirtækið RR consulting sjá um úttektina fyrir sveitarfélagið.
Í úttektinni verður kannað hvort þörf sé á breytingum á skipuriti og verkferlum meðal annars með það fyrir augum að bæta þjónustu, gera rekstur skilvirkari og skýra ábyrgðarsvið.
Jafnframt verður leitast við að kanna hvort ábyrgð og hlutverk stjórnenda og starfsmanna sé rétt fyrir komið eða hvort breytinga sé þörf. Samhliða mun fara fram athugun á boðleiðum og virkni skipulagseininga. Þá verði sérstaklega greint hvernig ferlum, fjármálum og öðrum björgum er beitt til að veita þjónustu sem og hvort eftirliti með framkvæmdum og öðrum rekstri sé sinnt á ábyrgan og sem hagstæðastan hátt.
Tvö fyrirtæki skiluðu inn kostnaðaráætlun í verkið en það voru Capacent og RR consulting. Eins og hefur komið fram þá var samþykkt að fela RR consulting verkið en kostnaðurinn er á bilinu 1,8-2,1 m.kr.