Smyril Line Ísland ehf. hefur keypt húsnæði Fiskmarkaðs Íslands við Hafnarskeið 11 í Þorlákshöfn og mun fyrirtækið flytja í nýja húsnæðið um áramótin.
Í fréttatilkynningu fyrirtækjanna segir að með kaupunum sé félagið að koma sér upp bættri starfsaðstöðu í bænum. „Enda hafa umsvifin aukist töluvert frá því vikulegar siglingar hófust milli Þorlákshafnar og Rotterdam með Mykinesi,“ segir í tilkynningunni.
Fiskmarkaður Íslands mun halda áfram starfsemi sinni í húsnæðinu með óbreyttu sniði um sinn og munu viðskiptavinir fiskmarkaðarins fá alla þjónustu fyrirtækissins áfram með sama hætti og verið hefur. „Fiskmarkaður Íslands fyrirhugar í kjölfarið að koma sér upp húsnæði sem hæfir betur starfseminni í Þorlákshöfn,“ segir jafnframt í tilkynningunni.