Félagasamtök funda án endurgjalds í Versölum

Félagasamtök í Ölfusi fá að funda í Versölum án endurgjalds en ný gjaldskrá fyrir Versali tók gildi 1. janúar.

Félagasamtök fá nú afnot af litla salnum til fundarhalda einu sinni í mánuði án endurgjalds. Auk þess fá félagasamtök í Ölfusi afnot af Versölum án endurgjalds einu sinni á ári fyrir fjáröflun eða viðburð. Þetta gildir þó ekki um viðburði þar sem áfengi er selt.

Örlítil hækkun hefur orðið á leigu salanna til almennings en leiga á litla sal kostaði 41 þúsund krónur árið 2018 en er núna 42 þúsund. Leiga á öllu húsinu kostaði 82 þúsund í fyrra en núna 85 þúsund krónur.

Starfsmaður þarf að fylgja húsinu við útleigu og er launagreiðsla ekki innifalin fyrir starfsmanninn. Tímakaup starfsmannsins hefur hækkað um 100 krónur á milli ára, var 3.500 krónur árið 2018 en er í dag 3.600 krónur.