Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins er í dag, 1. maí og var hann haldinn hátíðlegur víða um land, m.a. á Selfossi. Þar var farin kröfuganga og hátíðardagskrá í boði þar sem ræðumenn tóku til tals og þar á meðal var Þorlákshafnarbúinn Áfheiður Østerby, sem flutti hjartnæma og kröftuga ræðu sem við fengum leyfi til að birta í heild sinni hér á Hafnarfréttum.
,,Kæru félagsmenn og fjölskyldur og aðrir gestir.
Ég vil byrja á að óska ykkur til hamingju með verkalýðsdaginn. Það er mér mikill heiður að fá að koma hér fram á þessum merkilega degi og flytja nokkur orð fyrir ykkur. Eitt af því sem mér leiðist mjög við ræður, eru þegar þær eru langar og því ætla ég að hafa þetta hæfilega stutt.
Ég heiti Álfheiður Østerby og er að ljúka stúdentsprófi núna í vor frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Annars er ég bara 19 ára krakki frá Þorlákshöfn, þar sem ég bý.
Ég er afar stolt yfir því að vera frá Þorlákshöfn. Þar býr margt gott fólk og manni líður vel þar. Maður er hluti af einni heild og fær það utanumhald sem er svo nauðsynlegt fyrir hverja manneskju – það er gott að eiga góða að. Við stöndum saman. Við sem búum í Þorlákshöfn erum Þorlákshöfn. Oft er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp manneskju; og fyrir mér var það þorp Þorlákshöfn. Ég er ógurlega þakklát fyrir að hafa alist þar upp og ekki síður þakklát fyrir að móðir mín, sáluga, flutti með okkur systkinin þangað fyrir rúmum 11 árum. Því er ég líka alveg sammála því að segja að hamingjan sé þar, að hamingjan sé í Þorlákshöfn.
Ég hef svosem ekki lifað lengi. Ég er námsmaður og er því mín reynsla af vinnumarkaði bundin sumarstörfum og vinnu meðfram námi. Eins og ég sagði áður, þá er ég bara krakki. Ég er bara rétt að byrja líf mitt. En ég veit samt hvað er mikilvægt í lífinu. Til dæmis eru mín gildi í lífinu að verja tíma með fjölskyldunni minni og vinum. Það dýrmætasta í heiminum er kærleikurinn. Og elska ég fjölskylduna mína ógurlega mikið. Ég vil lifa, vera til, geta gert það sem mig langar. Hlaupið ef mig myndi langa til. Hlægja og brosa. Gera það sem gerir mig hamingjusama. Fylgja draumum mínum – og lifa lífinu.
En það sem mér finnst mikilvægast og vera grunnurinn að öllum tilgangi okkar hérna á jörðinni, er að bæta heiminn.
Það er bæði mikilvægt og nauðsynlegt að stöðugt sé staðið vörð um kjaramál verkamanna og þau tryggð með kjarasamningum. Kjaramál verkamanna er að sjálfsögðu ekkert annað en lífskjör manna. Hægt er að líta á baráttu verkalýðshreyfingarinnar síðastliðna mánuði og má þar auðveldlega sjá mikilvægi þeirrar baráttu. En með launahækkun og styttri vinnuviku er einmitt verið að stuðla að bættum lífskjörum manna. Við eigum að geta lifað lífinu. Búið í góðu og öruggu umhverfi. Getað varið tíma með fjölskyldu okkar og vinum. Átt tíma til að gera það sem okkur langar – og búið til ánægjulegar minningar. Við eigum að geta lifað lífinu – ekki lifa til að vinna heldur vinna til að lifa. Og því er starf verkalýðsfélaga afar mikilvægt til að staðinn sé vörður um réttindi okkar og þau séu virt.
Mikilvægi þessarar vinnu er ekki nýtt af nálinni. Það hefur lengi verið vitað að lífið eigi að einkennast af meiru en því einu að lifa af. Líklega má rekja það til réttlætiskenndarinnar í okkur, að verkalýðsfélögin voru stofnuð. Til dæmis þegar amma mín var ung, þá vann hún sex daga vikunnar. Í dag erum við með styttri vinnuviku og lengra sumarfrí en þá. Í dag höfum við rétt á veikindafríi og fæðingarorlofi, svo örfátt sé nefnt. Starf verkalýðshreyfingarinnar er heldur ekki á leiðinni að verða úrelt. Við munum stöðugt þurfa á henni að halda. Verkalýðshreyfingin er til þess að vernda fólkið, starfsfólkið. Og má það starf ekki falla í gleymsku né mikilvægi þess.
Tímarnir eru alltaf að breytast. Og tímarnir breytast enn örar með tilkomu nýrrar tækni. Framtíðin mun gera kröfur um mikla aðlögunarhæfni, þar sem að margar breytingar munu eiga sér stað á skömmum tíma. Þar að auki mun skilgreining á störfum að öllum líkindum einnig breytast með samfélagslegu breytingunum á öld tækninnar. Því mun verða forsenda fyrir því að aðlagast skjótt fjölbreyttum aðstæðum, til að geta átt við breytingarnar.
Mér sem ungri manneskju finnst nauðsynlegt að við stöndum einnig vörð um umhverfið í öllum þessum öru breytingum og að við stuðlum að sjálfbærni þess til framtíðar.
Því skulum við á þessum degi, tileinkuðum verkalýðsfólki, standa vörð um mikilvægi þess að verkalýðsbaráttunni verði ávallt að halda áfram og að gildi hennar falli ekki í gleymsku í hugum okkar. Því við eigum rétt á því að geta lifað lífinu og átt okkur líf umfram vinnunnar. Við höfum rétt á því að geta varið tíma með fjölskyldu okkar. Við eigum að geta átt tíma í að gera það sem gefur líf okkar gildi, stundað áhugamál okkar, og geta notið þess að vera til. Á þessum degi skulum við vera stolt yfir því sem hefur verið áorkað. Við skulum standa saman á þessum degi, og einnig alla aðra daga, og stuðla þannig að áframhaldandi bjartri framtíð.
Takk fyrir mig“