Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur tekið ákvörðun um að endurnýja starfsleyfi Fiskmarks ehf. tímabundið til 6 mánaða eða út árið 2019. Frá árinu 2012 hefur fyrirtækið ekki fengið afgreitt fullt 12 ára starfsleyfi, heldur hefur starfsleyfi fyrirtækisins verið endurnýjað ýmist til eins eða tveggja ára í senn. Þetta kemur fram á vef Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.
Í greinargerð með starfsleyfinu kemur fram að fyrirtækinu sé „þar með veittur frestur til að ganga frá stöðvun rekstursins að Hafnarskeiði 21, enda telur nefndin ekki fært að ná markmiðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með því að minnka framleiðslumagn og/eða gera frekari breytingar á starfsleyfisskilyrðum.“
Töluverð óánægja hefur verið í Þorlákshöfn vegna lyktamengunar og til marks um það þá bárust heilbrigðiseftirlitinu 67 erindi þar sem lagst var gegn endurnýjun á starfsleyfi fyrir Fiskmark ehf. vegna viðvarandi lyktamengunar sem hafi neikvæð áhrif á lífsgæði íbúa, afkomu fyrirtækja og ímynd Þorlákshafnar.