Þó nokkur íbúafjölgun hefur verið í Þorlákshöfn á seinustu misserum og samfara því hefur myndast þörf fyrir fleiri úrræði í daggæslu og leikskólamálum. Nokkur umræða hefur verið meðal foreldra í bænum og hafa þau til að mynda átt fundi með bæjarstjóra til að útfæra hugmyndir og kalla eftir lausnum. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að þessi verkefni séu meðal þeirra allra skemmtilegustu. „Um leið og ég hef fullan skilning á þeim óþægindum sem óvissan getur valdið foreldrum þá verður á sama tíma að muna hversu mikil forréttindi eru fólgin í því að takast á við vaxandi fjölda íbúa og þörfina fyrir þjónustu við enn fleiri börn.“
Elliði segir að samstarfið við foreldra hafi verið til mikilla fyrirmyndar. „Mér hefur fundist nálgun foreldra einmitt vera með þessum formerkjum. Um leið og þau kalla eftir nauðsynlegri þjónustu þá gera þau sér grein fyrir því að þetta eru krefjandi verkefni og bjóða fram aðstoð sína við úrlausn“.
Bæjarráð fjallaði um þessa mikilvægu þjónustu á seinasta fundi sínum og var þar sérstaklega rætt um hvernig brugðist hafi verið við ákvörðunum bæjarstjórnar um að fjölga plássum á leikskóla sveitarfélagsins. Þar kom ma. fram að á seinustu vikum hafi verið unnið að því að breyta innra skipulagi á leikskólanum með það í huga að mæta þörfum þeirra barna sem bíða eftir þjónustu leikskóla og foreldrum þeirra. Sú vinna hafi nú þegar skilað því að um næstu mánaðamót verður plássum fjölgað um 8. „Um leið og ég vona að þetta mæti þörf þeirra foreldra sem nú eru í brýnustu þörf eftir þjónustu, þá vona ég einnig einlæglega að börnum hér í okkar góða bæ eigi eftir að fjölga enn hraðar og kalla á ný á úrbætur“ segir bæjarstjórinn.
Elliði segir einnig að því verkefni að byggja upp þjónustu fyrir börn í vaxandi bæjarfélagi sé aldrei lokið. „Það er og á að vera eftirsóknarvert fyrir fólk með ung börn að búa í Þorlákshöfn. Leikskóli er í dag fyrsta skólastigið og mikilvægt að við getum þjónustað þessa yngstu nemendur. Til að tryggja næsta skref í uppbyggingu þess erum við nú komin af stað með hönnun á stækkun leikskólans um að minnsta kosti eina deild. Framkvæmdir eiga að hefjast á næsta ári. Við erum einnig að ræða hvort að við opnum á ný þjónustu við fimm ára börn í grunnskólanum þar sem þau fá þá tækifæri til að kynnast nýju skólahúsnæði og fyrirkomulagi áður en þau þurfa að mæta námskröfum fyrsta bekkjar. Samhliða erum við þá að skapa aukið svigrúm fyrir fyrsta skólastigið í leikskólanum.
Elliði segist afar ánægður með þá miklu úrbætur sem felast í lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og telur þetta hafa verið löngu tímabært. Hann telur að þessi breyting leggi en fastari kröfu á sveitarfélög að tryggja að það myndist ekki gjá milli fæðingarorlofs og fyrsta skólastigsins sem í dag hefst við 18 mánaða aldurinn. „Þjónusta dagforeldra er því mjög oft fyrsta úrræðið og hér í bæ höfum við búið að fyrirmyndarþjónustu hvað það varðar. Við auglýstum nú mjög nýlega eftir dagforeldrum og tókum um leið ákvörðun um að stór auka fjárhagslega aðkomu sveitarfélagsins að þeirri þjónustu. Vonandi tekst okkur að tryggja áframhaldandi uppbyggingu dagforeldraþjónustunnar.