Á síðasta bæjarráðsfundi Ölfuss var tekin ákvörðun um að engin dagskrá verði í Þorlákshöfn á sjómannadaginn í ár.
„Þar sem nokkur óvissa hefur verið um samkomuhald hefur ekki verið farið af stað í undirbúning fyrir Sjómannadaginn. Þrátt fyrir að neyðarstigi Almannavarna hafi verið aflétt og samkomutakmarkanir séu á undanhaldi hefur verið ákveðið að fella niður hefðbundna dagskrá Sjómannadagsins í ár.“ Segir á heimasíðu Ölfuss.
Sveitarfélagið stefnir á að halda glæsilegan sjómannadag á ári og þykir miður að þurfa að hætta við dagskrána í ár.
Fram kom þó á sama fundi að hátíðarhöld á 17. júní verða á sínum stað í Þorlákshöfn en þó með óhefðbundnu sniði vegna aðstæðna. Fimleikadeild Þórs og Körfuknattleiksdeild Þórs halda utan um dagskrá 17. júní þetta árið.