Framhalds- og háskólanemendur fara ekki varhluta af COVID heimsfaraldrinum en nám þeirra fer nú að stóru leiti fram sem fjarnám og ljóst að því fylgja miklar áskoranir. Í Ölfusi, og þá ekki síst í Þorlákshöfn, eru fjölmargir nemendur sem finna þessa stöðu á eigin skinni. Þá hefur þeim fjölgað hratt sem sinna vinnu sinni í fjarvinnu, að hluta til eða alveg.
Hið nýstofnaða þekkingarsetur, Ölfus Cluster, hefur nú í samstarfi við Bókasafn Þorlákshafnar ákveðið að opna les- og vinnustofu fyrir framhalds- og háskólanemendur og starfsmenn fyrirtækja sem vinna þessa dagana í fjarvinnu.
Páll Marvin Jónsson framkvæmdastjóri Ölfus Cluster segir að með þessu vilji þau leita leiða til að styðja þessa íbúa sem sannarlega glíma við erfiða stöðu. „Í ljósi þess að nær öll háskólakennsla og stór hluti kennslu í framhaldsskólum er nú kennd í formi fjarnáms og að oft er lítill friður til náms og vinnu á heimilum fólks, þá er ætlunin að gera tilraun með að bjóða upp á aðstöðu hér í Bókasafni Þorlákshafnar. Til að byrja með ætlum við að hafa opið milli kl. 8:00 og 17:00 alla virka daga. Ef að þörf verður fyrir rýmri opnun þá skoðum við það með sveitarfélaginu og reynum að finna lausnamiðaðar leiðir til að veita meiri þjónustu.“
Páll Marvin segir að vissulega renni þau blint í sjóinn hvað þetta varðar. „Auðvitað vitum við ekki nákvæmlega hverjar þarfirnar eru, né hvernig þessu verður tekið. Eins og gefur að skilja getum við ekki tekið að okkur kennslu eða stuðning við hverja námsgrein fyrir sig. Við getum hins vegar lagt til aðstöðu og skapað jákvætt umhverfi fyrir þessi störf. Þá getum við einnig stutt nemendur í samskiptum við skólana þegar kemur að prófum, tekið að okkur yfirsetu í samstarfi við skólana og ýmislegt fl. Fyrst er að vilja, restin er bara útfærsla.“
Páll segir að þegar sé búið að setja upp aðstöðu á bókasafninu að Hafnarbergi 1, og hvetur áhugasama til að leita nánari upplýsinga hjá honum í síma: 694-1006 eða með því að senda tölvupóst á netfangið pmj@olfus.is.