Samið hefur verið um uppbyggingu nýs miðbæjar í Þorlákshöfn sem staðsettur verður norðan Selvogsbrautar. Samið var við fyrirtækið Arnarhvol sem er meðal annars í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar en á fundi bæjarstjórnar Ölfuss í gær lágu fyrir drög að samningnum við Arnarhvol.
Nýji miðbærinn mun mótast af 200 metra langri göngugötu þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu á skrifstofum, verslunum, þjónustu og íbúðabyggð, auk opinna svæða og torga. Þá hafa aðilar samkomulagsins rætt mögulega samvinnu um byggingu fjölnota menningarsalar.
Bæjarfulltrúar O-lista telja vinnubrögð meirihlutans í þessu máli ekki boðleg og segja enga umræðu um málið hafi átt sér stað innan bæjarstjórnar um að afhenda einum aðila miðbæjarsvæðið án auglýsingar.
„Bæjarfulltrúar O-listans styðja heilshugar uppbyggingu miðbæjarsvæðisins en eru ekki reiðubúnir að taka þessa stóru ákvörðun með þessum stutta fyrirvara auk þess sem við teljum forkastanlegt að ekki sé horft til þess að auglýsa eftir áhugasömum aðilum og fá hugmyndir þeirra. Við leggjum því til að afgreiðslu þessa máls verði frestað og í framhaldinu auglýst eftir áhugasömum aðilum líkt og gert var vegna tveggja fjölbýlishúsalóða sem eru við miðbæjarsvæðið,“ segir í bókun O-listans.
Bæjarfulltrúar D-lista segja að bæjarfulltrúar O-lista höfðu sama tækifæri til að kynna sér málið þau og að allir tímafrestir í málinu séu í samræmi við þær reglur sem gilda um meðferð mála hjá Sveitarfélaginu Ölfusi.
„Fundargögn voru send út með tilgreindum tíma og afgreidd í samræmi við vandaða stjórnsýslu. Þá hefur komið fram að Arnarhvoll er stórt og viðurkennt fyrirtæki sem hefur haft nákvæmlega sama aðgengi að frumkvæði og aðrir. Enginn sem að málinu hefur komið hefur nokkur fyrri tengsl við fyrirtækið, eigendur þess eða þá starfsmenn sem koma að málinu,“ segir í bókun D-lista.
Tillaga O-lista um frestun afgreiðslu málsins var felld með fjórum atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.
Þá var tekin til atkvæðagreiðslu tillaga bæjarfulltrúa D-lista um að samþykkja samkomulagið um byggingu miðbæjarins og var hún samþykkt með fjórum atkvæðum D-lista, fulltrúar O-lista greiddu atkvæði á móti.
Í fundargerðinni kemur fram að samkomulagið við Arnarhvol er með þeim hætti að Arnarhvoll skuldbindur sig til uppbyggingar hins nýja miðbæjar á grundvelli deiliskipulags sem aðilar vinna í sameiningu þannig að á svæðinu rísi eftirsóknarverð, hagkvæm og aðlaðandi byggð sem styrki Sveitarfélagið Ölfus í sessi sem eftirsóknarverðan búsetukost. Skipulagsvaldið er eftir sem áður allt á hendi sveitarfélagsins eins og vera ber. Þá greiðir Arnarhvoll allan kostnað við framkvæmdina þar með allan kostnað við gatnagerð, götulýsingu, yfirborðsfrágang og fleira.