Sveitarfélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla eins og segir í 4. grein laga um leikskóla nr. 90/2008. Eins bera sveitarfélög ábyrgð á sérúrræðum leikskólans, sérfræðiþjónustu og bera ábyrgð á og skulu sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs. Ennfremur er kveðið á um að sveitarfélög eigi að fylgja eftir innra og ytra mati þannig að slíkt leiði til umbóta í skólastarfi.

Framfarasinnar eru þeirrar skoðunar að það sé á ábyrgð Ölfuss í samstarfi við stjórnendur Hjalla að standa vörð um gæði, fagmennsku og líðan starfsmanna á Leikskólanum Bergheimum. Það kom skýrt fram á opnum fundi framboðanna sem haldinn var i Þorlákshöfn 2. maí sl. að ekki mætti gleyma núverandi leikskóla á meðan allur kraftur væri settur í uppbyggingu nýs leikskóla. Á það lagði önnur undirritaðra áherslu í ræðu sinni á fundinum þar sem bent var á mikilvægi þess að fara í aðgerðir svo ekki tapist meiri sérþekking á leikskólastarfinu en mjög margir menntaðir og reynslumiklir starfsmenn hafa undanfarið sagt starfi sínu lausu á Bergheimum. Slíkt tap á mannauði hefur óneitanlega mikil áhrif á starf leikskólans.

Við höfum hlustað á starfsmenn og fjölda foreldra barna sem eru á Bergheimum, heyrt þau lýsa áhyggjum sínum og vangaveltum um framtíð skólans. Við höfum líka hlustað á þær raddir sem lýsa þreytu á neikvæðri umræðu og vilja til að halda áfram. Til að geta haldið áfram þarf að eiga sér stað samtal, samtal um framhaldið, samtal um vilja og þarfir starfsmanna og foreldra, samtal um hvað sé hægt að gera til að bæta fyrir þessar aðgerðir, samtal um bætta líðan starfsmanna. Þetta er verkefni sem þarf að klára og mikilvægt er að ná sáttum. Þetta samtal eru Framfarasinnar tilbúnir í.

Það sem Framfarasinnar vilja gera í leikskólamálum er:

  • Að veita starfsmönnum sem mennta sig í leikskólakennarafræðum styrk. Það verður gert eins og var fyrir Hjalla, þannig að starfsmenn missa ekki tekjur á meðan innilotum og vettvangsnámi stendur.
  • Að gefa starfsfólki kost á að ræða við vinnusálfræðing til að vinna úr þeim áföllum sem innleiðingin hafði í för með sér.
  • Að koma á sátt milli sveitarfélagsins og starfsmanna Bergheima um hlunnindi sem töpuðust við innleiðinguna sem var rætt um að myndi ekki gerast, líkt og líkamsræktarstyrkur.
  • Að hraða uppbyggingu nýs leikskóla eins og unnt er og fara í stefnumótandi vinnu strax.

Við höfum mikinn metnað fyrir leikskólastarfinu og viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa vörð um Leikskólann Bergheima. Því óskum við eftir ykkar stuðningi, setjið X við B á kjördag, næstkomandi laugardag og við vinnum með ykkur að málefnum leikskólanna.

Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, leikskólakennari og hegðunarráðgjafi hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings

Katrín Ósk Sigurgeirsdóttir, kennaranemi og fyrrum starfsmaður leikskólans.