Auðugt menningarlíf er máttur hvers samfélags

Mannlíf í Ölfusi er líflegt, fjörugt og fjölbreytt og þannig hefur það verið í gegnum tíðina. Menningin er án efa límið sem heldur okkur saman og skapar okkar góða og samheldna samfélag. Við státum af fjölmörgum skapandi, kraftmiklum og hugmyndaríkum einstaklingum sem allir hafa lagt sitt af mörkum til þess að menningarlíf okkar sé í senn fjölbreytt og gróskumikið. Þá starfa hér fjölmörg félög og hópar sem allir stuðla ríkulega að öflugu menningarlífi og má þar nefna Lúðrasveitina, Leikfélagið, kórana, Hljómlistafélagið og Þollóween svo fátt eitt sé nefnt. Það er nefnilega þannig að ímyndunaraflið er heimur út af fyrir sig þar sem allt getur gerst. Þegar góðar hugmyndir mæta svo áhuga og framkvæmdagleði getur útkoman ekki orðið neitt nema afburða góð eins og hinir fjölmörgu viðburðir og samkomur sem haldnar eru hér af áhugafólki ár hvert bera vott um.

Ástandið síðastliðin tvö ár hafa þó reynst menningarviðburðum sem og félagslífi öllu fjötur um fót. Samkomutakmarkanir eru ekki beinlínis menningarvænar eins og við öll vitum. Hins vegar var hér að störfum mjög öflug afmælisnefnd sem allt síðasta ár stóð fyrir ýmsum skemmtilegum viðburðum en nefndin starfaði í tilefni 70 ára afmælis þéttbýlisins. Meðlimir nefndarinnar eiga hrós skilið fyrir þá útsjónarsemi og hugmyndaaugði sem þeir sýndu við hamlandi aðstæður. Stóð hún að viðburðum á borð við rafræna spurningakeppni, myndlistarsýningu víðs vegar um bæinn, strandhátíðina Bergrisann ásamt tónleikum við vitann, leiklistarsýningu fyrir börn í skrúðgarðinum og streymistónleika með Jónasi Sig á Þorláksmessu svo stiklað sé á stóru.

Við upphaf kjörtímabilsins var ráðist í að endurskipuleggja bæjarhátíðina undir nafninu ,,Hamingjan við hafið“ með frábærum árangri. Síðustu ár hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hátíðarinnar sem starfað hefur ötullega í samstarfi við íbúana að viðburðum hennar þó takmarkanir hafi þó leikið okkur grátt sl. tvö ár. Á kjörtímabilinu var jafnframt tekin ákvörðun um að styðja við bakið á bæði Hljómlistafélaginu sem og Leikfélaginu til að komast í eigið húsnæði en sérstaklega hafði leikfélagið verið á hrakhólum með sína starfsemi undanfarin ár. Það verður afar ánægjulegt þegar starfsemi félaganna kemst á fullt skrið aftur í nýju húsnæði og við hin fáum tækifæri til að njóta afrakstursins.

Við á D-listanum höfum fullan hug á að halda áfram að styðja myndarlega við menningarlífið í Sveitarfélaginu enda erum við vel meðvituð um að gleði, jákvæðni og hamingja er alltaf sá jarðvegur sem stuðlar að framþróun og uppbyggingu í samfélögum í öllu tilliti.

Á stefnuskrá okkar eru ýmsir þættir er stuðla enn frekar að gróskumiklu menningarlífi. Nú nýverið var undirritaður samningur við örugga fjárfesta um uppbyggingu nýs miðbæjar en þar gerum við ráð fyrir að verði frjó flóra af veitingastöðum, verslunum auk fjölnota menningarsalar sem muni m.a. nýtast fyrir tónlistarviðburði, listsýningar, safnmuni og ýmsa menningartengda viðburði. Við ætlum okkur að halda áfram að efla bæjarhátíðina ,,Hamingjan við hafið“ þannig að hún endurspegli fjölbreytt menningarlíf innan sveitarfélagsins. Við viljum styrkja fjölmenningu í samfélaginu m.a. með því að skapa vettvang fyrir menningarviðburði sem varpa ljósi á ólíkan og gróskumikinn menningarheim íbúa og eflir tengsl þeirra á milli.

Við ætlum að koma á laggirnar fastri nefnd um menningarmál þar sem á sæti starfsmaður í hlutastarfi sem framfylgir ákvörðunum hópsins og styður við menningarstarf í samfélaginu. Síðast en ekki síst þá viljum við auka aðkomu sveitarfélagsins að sjálfsprottnum menningar- og mannlífsviðburðum eins og Þolloween sem sannarlega er orðin einn af skemmtilegri viðburðum ársins þar sem allir finna eitthvað sér við hæfi. Það er nákvæmlega þetta sem er svo ómetanlegt við okkar samfélag. Skapandi frumkvöðlastarf úr ýmsum áttum sem er sprottið af áhuga, drifkrafti og samstarfsgleði og hrífur okkur öll með sér. Að þessu þurfum við að hlúa vel.

Menningin er afl sem mótar einstaklinginn, hugsun hans og hegðun. Við þurfum að leggja rækt við menningartengda viðburði fyrir alla aldurshópa. Viðburði sem þjappa okkur saman sem samfélagi eftir erfiða tíma, veita okkur gleði og bjartsýni og ýta undir náungakærleikann. Það er jú lífið sjálft í sinni fallegustu mynd og að slíkri tilveru viljum við vinna áfram í samfélagi við ykkur.

Ef þér lesandi góður hugnast okkar áherslur og markmið þá vænti ég þess að þú setjir X við D næsta laugardag.

Guðlaug Einarsdóttir frambjóðandi í 5. sæti D-listans