Síðustu vikur hafa verið bæði skemmtilegar og krefjandi. Samstilltur hópur XB Framfarasinna í Ölfusi hafa farið um sveitarfélagið til að hitta fólk og ræða það sem á því brennur. Við höfum fengið ábendingar um hvað hefur verið vel gert, hvað mætti betur fara og hvaða áherslur þið viljið sjá á næsta kjörtímabili. Upp úr þessum samtölum var sett saman metnaðarfull málefnaskrá sem sjá má í heild sinni á heimasíðunni okkar www.framfarasinnar.is. Á okkar lista er víðsýnt fólk með þekkingu, reynslu og færni til að leiða áframhaldandi uppbyggingu sveitarfélagsins og reka stofnanir þess með ábyrgum hætti. Takk fyrir öll samtölin á undanförnum vikum, góðar móttökur, jákvæðnina og hvatninguna. Takk.

Við finnum mikinn meðbyr og höldum ótrauð áfram, endaspretturinn á þessari kosningabaráttu er bara byrjunin á mikilli og góðri vinnu á þágu samfélagsins okkar. Við hlökkum til að vinna fyrir ykkur, íbúa Ölfuss, en til þess þurfum við auðvitað góða kosningu.

Kjósandi góður, það er undir þér komið að knýja fram það besta mögulega fyrir samfélagið okkar. Við í X-B göngum óbundin til kosninga og höfum alltaf talað fyrir góðri samvinnu kjörinna fulltrúa. Tryggjum heiðarlega, einlæga og þjónandi stjórnsýslu. Tryggjum áframhaldandi framfarir og umbætur til hagsbóta fyrir alla.

Setjum X við B og vinnum saman að bjartri framtíð Ölfuss.

Frambjóðendur X-B Framfarasinna Ölfusi