Fjöldahjálparstöð var opnuð í Grunnskólanum í gær þegar allar leiðir voru orðnar ófærar. Slysavarnardeildin Sigurbjörg sá um að ekki væsti um fólk á meðan. Að sögn Maríu Óskar Jónasdóttur opnaði fjöldahjálparstöðin klukkan 5 í gærmorgun og var þá strax töluverður fjöldi fólks sem þurfti að bíða þar uns vegurinn til Selfoss var opnaður. Segir hún að margir hefðu verið kátir með að komast loksins heim eftir erfiða nótt. Seinnipartinn bættist aftur í hópinn þegar strandaglópum var smalað úr Skálanum og voru mest 47 manns sem leituðu á náðir fjöldahjálparstöðvarinnar.
,,Þau fengu pítsur í kvöldmat sem voru borðaðar á meðan horft var á Four Christmases. Svo er búið að vera kósí í hálfgerðu jólabíói í kvöld en nú eru flestir sofnaðir og eru bæði margar stofur notaðar sem og allir sófar á svæðinu sem eru sem betur fer margir“, sagði María Ósk í gærkvöld.