Við Ölfusingar erum sannarlega rík af hæfileikaríku og metnaðarfullu íþróttafólki. Íþróttastarfið er keyrt áfram af einstaklega duglegum sjálfboðaliðum sem leggja mikinn tíma og fyrirhöfn í að skapa góða umgjörð og umhverfi til að okkar frábæra íþróttafólk geti vaxið og dafnað. Árangurinn er hreint útsagt frábær og hreint ekki sjálfgefinn. Þessir sjálfboðaliðar fá oft ekki mikið hrós fyrir sín störf en ég vil nýta tækifærið og skila innilegum þökkum til þeirra fyrir framlag þeirra til íþróttanna.
Hamar/Þór í efstu deild
Nú nýlega unnu stelpurnar okkar í Hamar/Þór sæti í efstu deild kvenna í körfuknattleik. Hreint magnaður árangur þá ekki síst vegna þess hve stutt er síðan deildin tók til starfa. Í tilefni þess ákvað Bæjarráð Ölfuss nú í morgun að veita sérstakan afreksstyrk til deildarinnar að upphæð 2.5 milljónum króna. Okkar vonir eru að styrkurinn verði innspýting inn í það öfluga starf sem fyrir er.
Innilega til hamingju með árangurinn stelpur, þjálfarar og allir hinir sem koma að starfinu!
Að endingu vill ég minna á að 12.fl kvenna keppir á laugardaginn kemur um íslandsmeistaratitilinn og hvet ég alla til að mæta á svæðið og hvetja þær til sigurs. Leikurinn hefst kl 18:00 í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn.
Grétar Ingi Erlendsson