Dagskrá Hamingjunnar við hafið hófst í dag á því að Leikhópurinn Lotta sýndi Bangsímon í Skrúðgarðinum. Skömmu áður en sýning hófst helltu himnarnir hressilega úr sér en þegar hún byrjaði stytti upp og það var hlýtt, bjart og gott í garðinum okkar fallega. Ungir sem aldnir skemmtu sér konunglega yfir sýningunni eins og endranær þegar Lotta treður upp. Kvenfélag Þorlákshafnar styrkti sýninguna svo hún var öllum gestum að kostnaðarlausu.
Klukkan 20 í kvöld var svo komið að Hverfafótboltanum. Þrjú lið mættu til leiks, bláir, rauðir og blandað lið gulra og grænna/appelsínugulra. Bláa liðið vann báða sína leiki og hömpuðu því Boltapumpunni 2024 í mótslok. Sandra Björk úr bláa hverfinu fékk viðurkenningu sem eftirminnilegasti leikmaðurinn en hún gaf ekki tommu eftir í leik sínum. Þráinn Sigurðsson átti bestu tilþrifin þegar hann skallaði boltann þannig að gleraugun flugu af honum langt út á völl. Þau komu þó óbrotin úr darraðadansinum. Bláa liðið átti svo bestu liðsbúningana en þeir voru gerðir úr Ikea pokum og sérútbúnir fyrir mótið. Þór Emilsson var mótsstjóri og sá um að allt gengi vel fyrir sig. Þráinn Sigurðsson og Lárus A. Guðmundsson sáu einnig um dómgæslu. Á morgun heldur hátíðin svo áfram en þá verður sundlaugarpartý fyrir 10 ára og eldri þar sem Diskótekið Dísa heldur uppi fjörinu milli kl. 16 og 18. Einnig verður leikjakvöld í Skrúðgarðinum kl. 20 þar sem fólk mætir með bolta, snú-snú bönd, Kubb eða hvaðeina sem það vill til að leika með. Sá viðburður er hugsaður fyrir alla fjölskylduna, börnin, foreldrana, frænkur, frænda, ömmur og afa.