Sveitarfélagið Ölfus hefur ótal margt að bjóða þegar kemur að hágæða ferðaþjónustu.
Nú þegar eru í bígerð mjög spennandi verkefni sem munu draga að ferðamenn frá öllum heimshornum og munu allir íbúar sveitarfélagsins njóta góðs af því.
Raufarhólshellir er í dag afar vinsæll og ferð í hellinn er einstöku upplifun fyrir ferðamenn. Selvogur, Selvogsviti og Strandakirkja eru einstaklega fallegir staðir og afar vinsælir viðkomustaðir þar sem saga og stórfengleg náttúra fara saman.
Svörtu sandfjörurnar í Ölfusinu heilla líka og svæðið þykir eitt athyglisverðasta brimbrettasvæði Evrópu. Við eigum líka einn besta golfvöll landsins, sem hefur nú verið endurnýjaður og er einn sá skemmtilegasti á landinu (www.golfthor.is ).
Mannlífið er líka einstakt og einmitt í ætt við það sem ferðamenn vilja upplifa, lítið samfélag þar sem harðduglegt fólk býr í fallegu en á stundum hrjóstrugu umhverfi.
Sú uppbygging sem fram undan er í matvælaframleiðslu á svæðinu býður einnig upp á mikla möguleika, þar sem ferðamenn geta gætt sér á fiskmeti og öðrum matvælum úr héraði, sem eru framleidd með sjálfbærni að leiðarljósi.
Spennandi uppbygging í kortunum
Ölfus hefur undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu á 130 herbergja glæsihóteli hannað verður og starfrækt í nálægð við golfvöllinn. Þar er hugmyndin að byggja upp glæsilegan baðstað fyrir hótelgesti með útsýni yfir svarta sanda og Atlantshafið.
Í Hveradölum er einnig hafin frumhönnun á nýjum baðstað sem verður einstaklega vel staðsettur og þar sem áhersla verður lögð á sjálfbærni og fullkomna hringrás heita vatnsins.
Þá eru einnig uppi hugmyndir um uppbyggingu gróðurhúsa og ræktunar í Ölfusi.
Tækifærin í Ölfusi eru þannig óþrjótandi.
Uppbyggingu teflt í tvísýnu
Yfir öllum þessum hugmyndum og framtíðarsýn hvílir þó skuggi. Það er skugginn af mölunarverksmiðju Heidelberg með risavöxnum mannvirkjum og allt að 18 sílóum sem verða 52 metra há. Mannvirkin verða sýnileg í 20 km. radíus og samkvæmt opinberum upplýsingum stendur til að verksmiðjan verði í gangi allan sólarhringinn. Umferð á um annað hundrað vörubíla á degi hverjum, rykmengun frá verksmiðjunni og sú ásýndarbreyting sem verður á svæðinu mun tefla uppbyggingu í ferðaþjónustu á svæðinu í tvísýnu.
Ferðaþjónusta er í dag stærsti atvinnuvegur Íslands og Ölfus er í dauðafæri að vera einn áhugaverðasti áfangastaðurinn á Suðurlandi með áherslu á sjálfbærni, einstaka náttúrufegurð og fjölbreytta afþreyingu.
Verði mölunarverksmiðja Heidelberg að veruleika mun hún ekki einungis mala grjót heldur einnig þá framtíðarmöguleika sem við eigum í sjálfbærri hágæða ferðaþjónustu hér í Ölfusi.
Byggjum græna og bjarta framtíð í Ölfusi – segjum nei við mölunarverksmiðju.
Hróðmar Bjarnason