Beðið eftir svörum frá Þorsteini Víglundssyni

Sl. miðvikudagskvöld hélt Heidelberg íbúafund í Þorlákshöfn. Daginn eftir birti Þorsteinn Víglundsson, talsmaður fyrirtækisins, póst í Facebook-hópi Ölfusinga. Þar bauðst hann til að svara áfram þeim spurningum sem fólk hefur varðandi verksmiðjufyrirætlanirnar. 

Ég setti nokkrar spurningar í komment við póstinn hans tveimur stundum eftir að hann var birtur á fimmtudaginn. Þeim hefur ekki verið svarað en ég vona að svör berist fljótt þar sem flestir kjósa á kjördag alþingiskosninganna. Þangað til, þar sem mér finnst þetta vera mikilvægar spurningar sem eiga erindi til allra, birti ég þær hér í Hafnarfréttum. 

  1. Gætirðu sagt mér hvað Heidelbeg Materials framleiðir árlega af steypu annarsvegar og sementi hinsvegar (og hvort þær tölur skarist á)? Hversu mikið af þeirri steypu og/eða sementi yrði umhverfisvænna með því móbergi sem unnið yrði á Íslandi ef af verksmiðjunni yrði?
  2. Ef íslenskt móberg er langbesti íaukinn sem gæti komið í stað flugösku, þyrfti í framtíðinni ekki að auka móbergsvinnslu til muna til að móbegsíauki væri notaður að einhverju ráði? Þær 1,5 milljónir tonna móbegsíauka sem framleiddar yrðu í verksmiðjunni á ári eru náttúrulega gríðarlega lítið magn ef litið er til árlegrar steypuframleiðslu í heiminum en hún er yfir 40 milljarðar. Með 1,5 milljónum tonna er þá ekki aðeins hægt að ,,grænka“ nokkrar milljónir tonna af steypu á ári? Ef ekki á að nýta móberg meir í framtíðinni er þá móberg í raun og veru lausn á flugöskuvandanum þar sem það mun þá aðeins nýtast í brotabrot af allri þeirri steypu sem Heidelberg framleiðir og aðeins í brotabrotabrot af þeirri steypu sem framleidd er í öllum heiminum?
  3. Gætirðu útskýrt hvaða fyrirætlanir eða hugmyndir Heidelberg hefur til langtíma til að gera móbergsnýtingu að raunverulegri og áþreifanlegri lausn? Eða telur Heidelberg að þar sem móberg er svo sjaldgæft í heiminum að það sé ekki hægt að nýta það mikið meir en á að gera með einni verksmiðju?
  4. Ef ekki á að nýta móberg meir, hvaða vægi hefur ein verksmiðja á Íslandi í stóra samhenginu? Þegar verið er að ræða grænar lausnir af alvöru verða þær þá ekki að vera raunverulegar lausnir en ekki ein aðgerð sem mun aðeins geta tekist á við brotabrot af vandanum og breytir því sama og engu þegar á heildarmyndina er litið? Sem dæmi þá myndi sjárvarnáma verksmiðjunnar raska 0,003% hrygningarsvæðis við Íslandsstrendur. Á síðasta íbúafundi sagðir þú að slíkar skemmdir væru svo litlar að þær skiptu ekki máli í stóra samhenginu. En nú nægja 1,5 milljónir tonna af móbergsauka aðeins til þess að gera um 0,002 til 0,004% af steypu í heiminum. Þar sem um sömu prósentuhlutföll er að ræða, á mat þitt á skemmdum á hrygningarsvæðinu þá ekki einnig við um þá umhverfisvænni steypu sem yrði framleidd á Íslandi: þ.e., að hún skipti einfaldlega ekki máli í stóra samhenginu?
  5. Á íbúafundinum sagðirðu að bæjarbúar hefðu verið ósáttir við staðsetningu verksmiðjunnar þegar hún átti að vera í bænum og að Heidelberg hefði því ákveðið að hún yrði reist fyrir utan bæinn. En í sömu athugasemd staðhæfðirðu að bæir í útlöndum yxu í kringum verksmiðjur Heidelbegs og allir væru bara sáttir við það. Getur verið að staðreyndin sé frekar sú að bæjarfélög neyðist einfaldlega til þess að vaxa í kringum starfsemi sem í upphafi var fyrir utan bæjarmörk? Myndir þú vilja búa við hliðina á Heidelberg-verksmiðju?
  6. Á íbúafundinum fullyrtu talsmenn Heidelberg Materials að þeir þekktu fyrirtækið ekki af öðru en góðu og það að gagnrýna fyrirtækið væri aðför að íslenskum starfsmönnum persónulega. Í ljósi þessara orða, gætir þú útskýrt hvers vegna Heidelberg er á útilokunarlista hjá fjölda virtra fyrirtækja á Norðurlöndum og í Evrópu fyrir brot á alþjóðalögum og mannréttindum og fyrir umhverfisspjöll og óásættanlegar viðskiptavenjur? Gætirðu sett þetta í alþjóðlegt samhengi fyrir lesandann, þ.e.: í hversu mörgum löndum hefur Heidelberg orðið uppvíst að slíku framferði og í hversu mörgum löndum hefur fyrirtækið ekki framið neitt slíkt? Á hversu mörgum starfssvæðum Heidelbergs hafa íbúar skipulagt mótmæli gegn framkvæmdum fyrirtækisins og á hversu mörgum stöðum tekið fyrirtækinu opnum örmum? Myndu tölfræðilegar staðreyndir í þessum málum ekki hjálpa Ölfusingum til að vega og meta fullyrðingar um að Heidelberg ætli sér að vera góður granni?
  7. Þú hefur lýst því yfir að þú viljir að fólk taki upplýsta ákvörðun og að lýðræðið verði að fá að ráða. Finnst þér upplýsandi og lýðræðislegt að Heidelberg (framkvæmdaraðilinn) haldi marga íbúafundi um verkefnið sitt frá sinni hlið en að sveitarfélagið hafi haldið enga íbúafundi þar sem umsagnaraðilar Skipulagsstofnunar hefðu getað útskýrt sitt mat á verkefninu? 

Jón Hjörleifur Stefánsson.