Það ríkir sérstakt ástand í Þorlákshöfn. Enn eitt uppþotið og nú er það höfnin okkar sem er bókstaflega komin í frost – ekki vegna skorts á framtíðarsýn, fjármagni eða áhuga þeirra sem hana nota, heldur snýst deilan um ólíka hagsmuni heimafólks og þeirra sem kjósa að nýta svæðið fyrir brimbretti.
Í síðustu viku var farið fram á stöðvun framkvæmda við landfyllingu í höfninni. Það var kærunefnd innan orku- og auðlindaráðuneytisins sem tók þá ákvörðun, en kærandinn var Brimbrettafélag Íslands.
Málið allt hið furðulegasta
Formaður brimbrettafélagsins hefur látið mikið af sér kveða í málinu og hafa aðrir meðlimir í Brimbrettafélaginu tekið undir hans málflutning. Umræðan hefur á tíðum verið áköf og óvægin. Formaðurinn hefur komið fram með rangfærslur sem hafa því miður verið leiðandi stef í umræðunni um landfyllinguna. Lýsandi dæmi er fullyrðingin um að uppfyllingin væri á vegum „námufjárfesta“ sem hefðu mútað starfsmönnum sveitarfélagsins og kjörnum fulltrúum. Það væri of langt mál að rekja framgöngu félagsins hér frekar. Röngum upplýsingum höfum við og sem betur fer flest heimafólk reynt að mæta með rökum og útskýringum.
Mikill kostnaður fyrir íbúa
Fyrir íbúa Ölfuss er þetta mál sérstaklega alvarlegt því stöðvun framkvæmdanna kostar samfélagið gríðarlega fjárhæð á hverjum degi. Lauslegar áætlanir benda til að kostnaðurinn við verkstöðvunina sé á bilinu 1,3 til 1,7 milljónir króna á dag. Ef tafirnar dragast á langinn gæti heildarkostnaðurinn numið allt að 120 til 130 milljónum króna, sérstaklega ef útbúa þarf bráðabirgðaaðstöðu fyrir Torship sem hyggst hefja áætlunarsiglingar til Þorlákshafnar. Við stöðvun framkvæmda lendir kostnaður alfarið á íbúum Ölfuss. Þennan kostnað er ekki hægt að sækja í brimbrettaiðkun, hann er þó hægt að sækja í framtíðarhafnargjöld vegna aukinna umsvifa hafnarinnar.
Af hverju er þetta mál yfir höfuð til umræðu?
Landfyllingin eykur landrými við Suðurvararbryggju og stækkar athafnarsvæði hafnarinnar við hinn nýja hafnarkant. Hún mun stuðla enn fremur að aukinni atvinnu og vermætasköpun í sveitarfélaginu. Hún er þó aðeins 9.000 fermetrar. Til samanburðar er vinnsluhús First Water, sem nú er í undirbúningi í Þorlákshöfn, 30.500 fermetrar. Landfyllingin er því aðeins um 30% af stærð þess húss.
Kæran snýr lítið að sveitarfélaginu sjálfu. Hún byggir á því að Brimbrettafélag Íslands telur að Skipulagsstofnun hafi átt að krefjast umhverfismats vegna framkvæmdarinnar. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var skýr en þar kom fram að landfyllingin skuli ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum. Árið 2021 tók stofnunin ákvörðun um að snúningur á Suðurvararbryggju og lenging Suðurvarargarðs væru ekki háð umhverfismati og er landfyllingin beint framhald af þróun hafnarsvæðisins. Svæðinu hefur því þegar verið raskað og metur Skipulagsstofnun svo að áhrif framkvæmda á vistkerfið séu hverfandi.
Höfnin er lífæð samfélagsins
Höfnin í Þorlákshöfn er okkar mikilvægasti innviður. Án hennar hefði þorpið ekki byggst upp. Styrkur hafnarinnar ræður velferð samfélagsins. Þess vegna hefur nú verið farið fram á afléttingu stöðvunarinnar og frávísun kærunnar. Við undirrituð munum fylgja þessu máli fast eftir og tryggja að hagsmunir heimafólks verði hafðir í fyrirrúmi.
Guðbergur Kristjánsson, formaður framkvæmda- og hafnarnefndar.
Erla Sif Markúsdóttir, bæjarfulltrúi og nefndarmaður í framkvæmda- og hafnarnefnd
Grétar Ingi Erlendsson, bæjarfulltrúi og nefndarmaður i framkvæmda- og hafnarnefnd