Vegna greinar frá meirihlutanum í Ölfusi sem birt var í gær, fimmtudag, vil ég taka fram eftirfarandi.
Til að byrja með vil ég koma því skýrt á framfæri að ég er algjörlega, og án fyrirvara, fylgjandi því að hjúkrunarheimili rísi í Þorlákshöfn. Ég er líka tilbúin að vinna með hverjum sem er til þess að koma því í kring. En sá gjörningur sem var borinn á torg í vikunni af bæjarstjóra og meirihlutanum í Ölfusi snýst ekki um það. Hann snýst um að slá ryki í augu fólks.
Eins og ég rakti í fyrri grein þá snýst málið um að stjórnendur sveitarfélagsins undir forystu Sjálfstæðisflokks tilkynntu fyrr í vikunni að hjúkrunarheimili rísi í Þorlákshöfn. Engir varnaglar voru slegnir heldur fullyrt að svo yrði. Það gengur auðvitað alls ekki upp að halda slíku fram þegar ekki er búið að eiga sér stað samtal við ráðuneyti málaflokksins sem er algjör forsenda fyrir því að hægt sé að fullyrða um svona hluti. Ég sagði líka frá því að hér væri verið að blása glimmeri í augu íbúa með því að tengja þennan draum fólks um hjúkrunarheimili við umdeilt fasteignaverkefni, en í fréttatilkynningu sveitarfélagsins segir að meint hjúkrunarheimili sé órjúfanlegur hluti af hinu umdeilda fasteignaverkefni við Óseyrarbraut.
Eins og flestir vita er ríkisstjórnin nú í miklu átaki um uppbyggingu hjúkrunarheimila og var eitt af fyrstu verkum hennar að breyta því fyrirkomulagi að sveitarfélög greiddu 15% á móti 85% hlut ríkisins af stofnkostnaði hjúkrunarheimila. Nú sér ríkið alfarið um þann kostnað, öll hundrað prósentin. Þetta gerði ríkisstjórnin til að flýta fyrir ferli málsins og vinna bug á þeirri risavöxnu innviðaskuld sem birtist í þessum málum eins og svo víða í okkar samfélagi. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Settar hafa verið af stað framkvæmdir við ný hjúkrunarheimili víða um land sem eiga að skila nokkur hundruð nýjum hjúkrunarrýmum á næstu árum. Hluti þeirra verkefna er í nánu og góðu samstarfi við einkaaðila. Hér hefur kyrrstaða verið rofin eftir margra ára stöðnun í þessum málaflokki.
Þessi árangur næst ekki í tómarúmi. Til að ná honum er unnið skipulega og kerfisbundið. Í því felst að ríkið vinnur að uppbyggingu hjúkrunarheimila í samræmi við framkvæmdaáætlun sem byggir á þarfagreiningu. Samkvæmt þarfagreiningu er þörfin langmest á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og er lögð áhersla á að byggja hjúkrunarheimili í sem mestri nálægð við heimili þeirra sem bíða. Biðtíminn eftir hjúkrunarrýmum á Suðurlandi er með því stysta á landinu, um 145 dagar í ágúst, sem er samt talsvert langur biðtími. Þar sem ýmis hjúkrunarheimili eru í nágrenni við Þorlákshöfn er ekki augljóst að hentugast sé að byggja þar. Framkvæmdaáætlunin sem verið er að vinna eftir er með tímasettum verkefnum til ársins 2029. Þorlákshöfn er sem stendur ekki þar á meðal, því miður.
Þetta er leiðin að nýju hjúkrunarheimili. Sú leið hefst með samskiptum við ríkið og ég velti fyrir mér hvort núverandi meirihluti í Ölfusi hafi á einhverjum tímapunkti á síðustu sjö árum sem þau hafa stjórnað átt í formlegu samtali við ráðuneytin sem bera ábyrgð á þessum málaflokki? Ég velti líka fyrir mér hvort að Þorlákshöfn hefði ef til vill lent á lista framkvæmdaáætlunar hjúkrunarheimila ef svo hefði verið? Öll góð verkefni hefjast með samtali, ekki innihaldslausum fréttatilkynningum.
Raunveruleikinn er sá að hjúkrunarheimili hefur ekki verið í neinum forgangi hjá þessum meirihluta. Ég ætla að gerast svo kræf að leyfa mér að efast um að þetta væri yfir höfuð á borðinu ef ekki væri fyrir umdeilda fasteignaverkefnið, hverfið sem á að rúma íbúafjölda Eyrarbakka á grænum svæðum milli gamla þorpsins og hafnarsvæðisins. Það segir enda í tilkynningum að hjúkrunarheimilið sé órjúfanlegur hluti af uppbyggingu þess hverfis.
Ég frábið mér því allt tal um að ég sé að vinna á móti því að hér rísi hjúkrunarheimili. Í raun hefur þetta verið mér hjartans mál í á annan áratug. Um það má til að mynda lesa í þessari frétt um samstöðu og baráttutónleika Tóna og Trix sem ég stýrði. Viðbrögð meirihlutans við gagnrýni minni voru vissulega viðbúin og í þekktum taki, en innihald þeirra samt sem áður ekki í neinum takti við raunveruleikann.
Ég get ekki staðið hjá sem Þorlákshafnarbúi, fyrrverandi bæjarfulltrúi og þingmaður kjördæmisins og sleppt því að benda á þessar staðreyndir sem blasa við. Hér er verið að afvegaleiða fólk með óheiðarlegum vinnubrögðum. Stjórnendur sveitarfélagsins vita vel að þeir geta ekki fullyrt að hér rísi hjúkrunarheimili fyrr en samningur við ríkið er í höfn og það alvarlegasta er að þetta er sett fram gegn betri vitund.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir