Á vef Sveitarfélagsins Ölfuss segir að í ár verði veitt verðlaun fyrir best skreyttu íbúðarhúsin í dreifbýli og þéttbýli Ölfuss og best skreytta fyrirtækið Ölfusi. Dómnefnd tilkynnir vinningshafa 19. desember.
Íbúar geta kosið um vinsælasta jólahúsið á vef Ölfuss og verður opnað fyrir tilnefningar þann 10. desember. Það hús sem fær flest atkvæði hlýtur vinsældaverðlaun.
Tilvalið að taka göngu eða bíltúr um Ölfusið og skoða skreytingar og njóta ljósadýrðarinnar.
Einnig hófst hönnunarsamkeppni þann 16. nóvember þar sem keppt er um Jólavettlinga Ölfuss 2025. Vettlingarnir þurfa að vera eigin hönnun og hugmyndaverk, prjónaðir, heklaðir, saumaðir eða endurunnir. Þeir vettlingar sem sendir verða inn verða til sýnis í Bókasafninu og stendur keppnin til 16. desember.
Jólaljósin verða tendruð á bæjarjólatrénu í Skrúðgarðinum sunnudaginn 30. nóvember kl. 17:30. Lúðrasveit Þorlákshafnar leikur jólalög og Barnakór grunnskólans syngur. Langleggur og Skjóða mæta á svæðið ásamt jólasveinum en þau taka forskot á sæluna og leggja leið sína til Þorlákshafnar af þessu tilefni.
Áðurnefnt bæjarjólatré er fallegasta grenitréð í Skrúðgarðinum og það fær að njóta sín sem bæjarjólatré framvegis. Sannkölluð fjölskylduhátíðarstemning í garðinum okkar fallega.

