– Frá Frjálsíþróttadeild Þórs
Krakkarnir í Frjálsíþróttadeild Þórs hafa verið duglegir við æfingar í sumar og náð góðum árangri á mótum sumarsins. Um verslunarmannahelgina fór hópur Þórsara á Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði. Þar nældu krakkarnir í fjölda verðlauna þrátt fyrir leiðindarok alla keppnisdagana. Sólveig Þóra, Viktor Karl, Styrmir Dan og Fannar Yngvi fengu m.a. gull í nokkrum greinum auk silfur og bronsverðlauna. Fleiri hlutu verðlaun og voru margir ótrúlega nálægt sínum besta árangri þrátt fyrir slæmar aðstæður veðurfarslega.
Á meistaramóti 15-22 ára unglinga á dögunum voru Fannar Yngvi Rafnarsson og Eva Lind Elíasdóttir í eldlínunni fyrir Þór /HSK. Fannar varð fimmfaldur Íslandsmeistari í sínum aldursflokki; í langstökki, hástökki, þrístökki, 200 m hlaupi og 400 m hlaupi og Eva Lind Íslandsmeistari í kúluvarpi í sínum flokki. Frábær afrek hjá þessu flotta íþróttafólki og ástæða til að óska þeim innilega til hamingju.
Um miðjan ágúst fór frjálsíþróttamótið Gaflarinn fram á Kaplakrika í Hafnarfirði – en það er mót fyrir 11-14 ára krakka. Þar náðu nokkrir Þórsarar mjög góðum árangri, þó uppúr standi afrek Viktors Karls Halldórssonar sem setti Íslandsmet í spjótkasti 11 ára pilta, kastaði 35,22 metra. Við óskum Viktori innilega til hamingju með það.
Um síðustu helgi var svo bikarkeppni 15 ára og yngri. Þórsarar áttu þar nokkra fulltrúa í liði HSK og er gaman að segja frá því að lið HSK var stigahæst í flokki 15 ára stráka og samanlagt var HSK í þriðja sæti í heildarstigakeppni.
Í næstu viku hefst vetrarstarfið hjá Frjálsíþróttadeildinni og er það vona stjórnar og þjálfara að sem flestir krakkar verði með í vetur á skemmtilegum æfingum undir stjórn Rúnars Hjálmarssonar.
Sigþrúður Harðardóttir
Formaður Frjálsíþróttadeildar Þórs