Leyndardómsfullur leiðangur í hellinn Arnarker

Kerid_14Næstkomandi sunnudag verður áhugasömum boðið að fara í hellaskoðun í fylgd hellaáhugamanna og félaga í Slysavarnarfélaginu Mannbjörgu.

Margir spennandi og misaðgengilegir hellar eru í Ölfusinu. Raufarhólshellir er þeirra þekktastur og hefur hann jafnvel verið notaður sem sviðsmynd í kvikmyndum, bæði innlendum og erlendum. Nokkuð sunnar er Arnarker, hellir sem færri þekkja og er ekki jafn aðgengilegur og sá fyrrnefndi. Arnarker er þó ekki síður spennandi og ævintýralegur og verður ferðinni heitið í hann á sunnudaginn.

Arnarker er í Leitarhrauni, neðan við vesturenda Hlíðarendafjalls.  Hægt er að komast í hellinn þar sem hraunþekja féll niður og opnaði þar með leið inn í hellinn. Ótrúlegt er talið að þakið hafi brotnað á þessum stað, þar sem hellirinn liggur þarna í um 16 metra dýpi.  Hellarannsóknafélag Íslands aðveldaði aðgengi að hellinum með því að setja járnstiga í hellinn árið 2000 en áður þurfti að taka með sér stiga eða kaðal til að komast í hann.  Hellirinn er um 516 metra langur en út frá opinu gengur rás um 100 metra til suðurs og um 400 metra til norðurs.  Gaman er að koma í hellinn á þessum árstíma þar sem mikið er um skemmtilegar ísmyndanir sem gaman er að skoða.  Í ferðinni næsta sunnudag, verða settir upp ljóskastarar til að hægt verði að taka myndir í hellinum, en þeir sem vilja fara með í leiðangurinn þurfa að skrá þátttökur á bókasafninu í Þorlákshöfn, annaðhvort í síma 480 3830 eða um netfangið barbara@olfus.is.  Lagt verður af stað kl 14:00, sunnudaginn 6. apríl og verður farið frá vegi 427, sem liggur að Hlíðarenda og vatnsverksmiðju Iceland Glacial frá Þrengslavegi (GPS: N63 53.571 W21 29.723).

Gera þarf ráð fyrir um þremur klukkustundum í ferðina og gott að hafa með nesti.  Hluta leiðar þarf að skríða og er því nauðsynlegt að vera í góðum skjólfatnaði og í vettlingum. Einnig þarf leiðangursfólk að vera með hjálma og höfuðljós. Björgunarsveitin á eitthvað af hjálmum og höfuðljósum sem hægt verður að fá lánað. Ef mikil aðsókn verður í ferðina, verður efnt til aukaferðar seinna um daginn.

Meðfylgjandi mynd er frá Guðmundi Brynjari Þorsteinssyni, hellaáhugamanni, en hann tekur þátt í leiðangrinum og mun á morgun, 3. apríl, opna sýningu á hellaljósmyndum sínum í bókasafninu í Þorlákshöfn klukkan 18:00. Sýningin mun standa út apríl mánuð.