Nokkrir af efnilegustu jazztónlistarmönnum Íslands í Þorlákshöfn

skarkali_auroraFimmtudagskvöldið 9.júlí næstkomandi verða haldnir jazz tónleikar í Versölum, Ráðhúsinu í Þorlákshöfn. Fram koma tríóið Skarkali og kvartettinn Aurora en báðar hljómsveitir eru skipaðar nokkrum af efnilegustu jazztónlistarmönnum Íslands. Sveitirnar eiga það líka sameiginlegt að hafa tekið þátt fyrir Íslands hönd í norrænu ungliðajazzhátíðinni Young Nordic Jazz Comets síðastliðin 2 ár.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og standa yfir í um það bil 2 klst. með stuttu hléi. Aðgangseyrir er einungis 1.500 kr. og fer miðasala fram við dyrnar. Þess má geta að Skarkali trió er um þessar mundir að gefa út sinn fyrsta geisladisk og verður diskurinn til sölu á tónleikunum á sérstöku tilboðsverði.

Hljómsveitin Aurora er jazz kvartett stofnaður af bassaleikaranum Sigmari Þór Matthíassyni á vormánuðum 2014. Hljómsveitin fór fyrir Íslands hönd til Helsinki í Finnlandi síðastliðið haust og tók þar þátt í hinni árlegu norrænu ungliða jazz keppni/hátíð „Young Nordic Jazz Comets“. Á hátíðinni koma fram norrænar hljómsveitir sem skipaðar eru efnilegustu jazzleikurum Skandinavíu. Auk þess kom Aurora fram á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst 2014 og á tónleikum á vegum Jazzklúbbsins Múlans í maí 2015 við góðan orðstíl.

Allir meðlimir hljómsveitarinnar eru útskrifaðir úr Tónlistarskóla FÍH og hafa þegar getið sér gott orð á tónleikasviðum bæði hér heima og erlendis. Aurora leikur frumsamdar tónsmíðar meðlimanna, kraftmikla tónlist sem einkennist af litríkum laglínum, fjölbreyttum rhythma en fyrst og fremst mikilli spilagleði. Nafn hljómsveitarinnar má rekja til hinna íslensku norðurljósa sem eru, líkt og tónlist Áróru, litrík og óútreiknanleg.

Aurora skipa Helgi Rúnar Heiðarsson – tenór saxófónn, Tómas Jónsson – píanó, Sigmar Þór Matthíasson – kontrabassi og Óskar Kjartansson – trommur

Tríóið Skarkali var stofnað sumarið 2013. Áður hafa liðsmenn spilað saman í mörgum hópum við hin ýmsu tilefni eftir að hafa kynnst í Tónlistarskóla FÍH. Þaðan hafa þeir allir útskrifast á síðustu árum. Skarkali flytur aðallega frumsamda jazztónlist eftir Inga Bjarna þar sem fjölbreytnin er höfð í fyrirrúmi. Fágaður bassaleikur Valdimars og kraftmikill trommuleikur Óskars setja tónlistina á hærra plan!

Skarkali hefur tvisvar komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur (2013 og 2014) auk þess sem tríóið tók þátt fyrir Íslands hönd í Young Nordic Jazz Comets hátíðinni árið 2013 sem haldin var í Þrándheimi, Noregi.

Sumarið 2014 ferðaðist tríóið til Færeyja og spilaði þar fjóra tónleika sem voru partur af tónleikaröðinni Summartónar. Tónleikaferðin til Færeyja var styrkt af Tónlistarsjóði og North Atlantic Tourism Association.

Skarkala skipa Ingi Bjarni Skúlason – píanó, Valdimar Olgeirsson – kontrabassi og Óskar Kjartansson – trommur.