Þingmenn Suðurkjördæmis vilja stórskipahöfn í Þorlákshöfn

storskipahofn01
Þetta gæti orðið algeng sjón í Þorlákshöfn ef tillaga þingmannanna nær í gegn.

Sjö þingmenn Suðurkjördæmis hafa skorað á innanríkisráðherra að fela Vegagerðinni að hefja nú þegar undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar í stórskipahöfn. Þingmennir eru Unnur Brá Konráðsdóttir (Sjálfstæðisflokkur), Vilhjálmur Árnason (Sjálfstæðisflokkur), Silja Dögg Gunnarsdóttir (Framsókn), Haraldur Einarsson (Framsókn), Oddný G. Harðardóttir (Samfylking), Páll Valur Björnsson (Björt framtíð) og Páll Jóhann Pálsson (Framsókn).

Í þingsályktunartillögu þeirra segir að á næstu árum sé fyrirhuguð mikil uppbygging í Þorláks­höfn á sviði iðnaðar, stóriðju og matvælaiðnaðar. „Við uppbygginguna verður lögð áhersla á að nýta auðlindir og aðstöðu sem fyrir er með áherslu á iðnað sem vel fellur að um­hverfinu. Samhliða er ráðgert að byggja upp hafnaraðstöðu samkvæmt þeim kröfum sem gerðar eru til stórskipahafnar. Auk þess að nýta hafnaraðstöðuna fyrir inn- og útflutning til landsins er höfninni ætlað að vera inn- og útflutnings­höfn fyrir iðnaðarsvæðið ásamt því að gera það mögulegt að höfnin geti sinnt því að vera umskipunar­höfn fyrir vörur á leið milli Evrópu og Bandaríkjanna,“ segir einnig í tillögunni.

Þorlákshöfn er eina höfnin á öllu Suðurlandsundirlendinu. Þingmennirnir segja það þjóðhagslega mikilvægt að nýta þá sérstöðu sem Þorláks­höfn hefur til uppbyggingar enda styður slík uppbygging við fjölbreytni í atvinnuþróun og búsetukostum á Suðurlandi. „Upp af hafnarsvæðinu er mikið landrými sem byggja má upp sem umskipunar- og geymslurými fyrir gáma­höfn, en vestan bæjarins hefur umfangsmikið svæði verið skilgreint sem iðnaðarsvæði. Í báðum tilvikum eru stækkunarmöguleikar verulegir. Á iðnaðarsvæðinu er aðgengi að miklu magni af hreinu vatni auk þess sem aðgangur að grænni raforku og heitu affallsvatni frá virkjunum er mögulegur.“

Undanfarin ár hafa erlend stórfyrirtæki lýst yfir áhuga á starfsemi í Þorlákshöfn og hafa staðið í viðræðum við bæjaryfirvöld í Ölfusi. „Því skiptir miklu máli að geta brugðist við eftirspurninni með stuttum fyrirvara og augljóst er að nauðsynlegir innviðir, svo sem hafnaraðstaða, þurfa að vera fyrir hendi,“ segir í tillögunni.

Einnig segir í tillögunni að Reykjavíkurborg hafi kynnt hugmynd um blandaða íbúðarbyggð á iðnaðarsvæðinu neðan við Sæ­braut í Reykjavík. Þá séu flutningsleiðir að og frá Sunda­höfn orðnar vissum takmörkunum háðar. „Þá leitar hafnarstarfsemin annað, hugsanlega í Þorláks­höfn sem hefur nægt landrými og liggur vel við siglingum. Auk þess er Árborgarsvæðið öflugt bakland með fjölþættri þjónustu og er aðeins í 50 km fjarlægð frá höfuð­borgar­svæðinu.“

Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn við framkvæmdina yrði á bilinu 8-11 milljarðar króna.