Vindmyllur munu ekki rísa við Þorlákshöfn í bráð

PowerPoint Presentation
Tölvu­teikn­ing af vindmyllum við Þorlákshöfn/​EFLA

Sveitarfélagið Ölfus er ekki tilbúið að ganga til samninga við Arctic Hydro ehf. um rannsóknar- og nýtingarleyfi sem snýr að virkjun vindafls á jörðinni Þorlákshöfn.

Arctic Hydro kynnti hugmyndir sínar fyrir bæjarstjórn í lok janúar sl. en hugmyndir fyrirtækisins voru að reisa vindorkugarð 3-4 km. vestan við Þorlákshöfn.

Vindorkugarðurinn átti að telja 20 stórar vindmyllur með vélarhús í um 80 m hæð yfir jörð og spaðarnir um 40 m langir, í efstu stöðu væru vindmyllurnar því í um 120 m hæð.

Í fundargerð bæjarstjórnar Ölfuss frá því 25. febrúar kemur fram að afstaða bæjarstjórnar skýrist af tvennu:

  • Það svæði sem óskað er eftir til rannsókna og mögulegrar uppbyggingar á vindmyllum síðar meir hefur verið skipulagt fyrir annan iðnað og eru áform um uppbyggingu þar.
  • Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein í Sveitarfélaginu Ölfusi og skapast sá vöxtur fyrst og fremst af ósnortinni náttúru svæðisins og ómetanlegu útsýni til sjávar og fjalla.