Lengsti jarðstrengur Landsnets

SelfosslínaNýverið var Selfosslína 3 tekin í notkun en það er 28 kílómetra jarðstrengur í eigu Landsnets. Jarðstrengurinn liggur á milli Þorlákshafnar og Selfoss og sá lengsti í flutningskerfi Landsnets

Með tilkomu jarðstrengsins eykst afhendingaröryggi á raforku í Þorlákshöfn, Selfossi og í Hveragerði. Einnig mun strengurinn styrkja vestari hluta kerfisins á Suðurlandi og eykur flutningsgetu rafmagns á svæðinu til muna.

„Strengleiðin liggur um sveitarfélögin Árborg og Ölfus, að mestu meðfram vegum sem fyrir eru á svæðinu, og var unnið að hönnun og útboði árið 2014, ásamt undirbúningi nauðsynlegra breytinga á búnaði tengivirkja í Þorlákshöfn og á Selfossi. Samið var við fyrirtækið NKT Cables um framleiðslu jarðstrengsins og flutning til landsins, ásamt eftirliti með lagningu hans, tengingum og prófunum. Undirverktaki þeirra á Íslandi var fyrirtækið Orkuvirki,“ segir í tilkynningu frá Landsneti.