Vírus eða pirrandi vinur

Flestir Facebook notendur sem hafa kveikt á tölvunni sinni síðustu sólarhringa, hafa vafalítið fengið aðvörun frá vini sínum.

Þarna eru sem sagt allir varaðir við að samþykkja vinabeiðni frá Jayden K. Smith. Þessi Jayden K Smith ku ekki vera sonur Will Smith, Jaden Smith. Það er allt annar drengur.

Um allan heim hefur fólk verið varað við þessum óþokka, hvort sem það er á Facebook, Twitter eða á öðrum ágætum samskiptamiðlum. Í milljóna tali fara sendingar frá raunverulegum vinum fólks að vara aðra vini sína við þessum óforskammaða hakkara.

Hver er þessi Jayden K. Smith ? Er hann hakkari sem brýst inn á Facebook aðganginn þinn ef þú svo mikið sem samþykkir vinabeiðni frá honum. Mun hann ryksuga upp allar persónulegar upplýsingar um þig, bankareikninga og fleira ef þú aðeins samþykkir hann sem vin. Svo sannarlega ekki.

Staðreynd málsins er sú að mjög fáir hafa í raun fengið vinabeiðni frá Jayden, hins vegar hafa ansi margir varað við vinabeiðnum frá honum. Það er í raun þau skilaboð sem eru “veiran” eða “gabbið”. Meinlaust en í raun aðeins pirrandi aðvörun við goðsagnakenndri vinabeiðni.

Í raun er þetta ekki nýtt af nálinni. Þó svo að síðustu daga hafi herra Jayden verið að pirra okkur, þá hefur þetta gengið yfir áður. Þá hét hann Jayden nöfnum eins og Anwar Jitou, Bobby Allen, Linda Smith og í eitt skiptið Maggie from Sweden. En allir þessir aðilar og meira að segja Magga frá Svíþjóð eru ekki hakkarar sem taka yfir líf okkar.

Það er því ekkert að óttast og þetta er aðeins “gabb” sem hefur gengið í langan tíma undir mörgum nöfnum. Alltaf gengur þetta út á það sama. Að fá notendur til að senda áfram tilkynningu um að samþykkja ekki vinabeiðni frá alræmdum hakkara að nafni …….

Þetta er þó ekki hættulegt af þeirri einföldu ástæðu að ekki er mögulegt að fá vírus eða annan óþverra í tölvuna þína með því einu að samþykkja vinabeiðni. Mun auðveldari leið til að gefa fólki vírus er klárlega að koma honum í tölvupósti til fólks.

Það er því mikið nær að hafa augun opin fyrir hlekkjum eða viðhengjum sem gætu sýkt vélina þína.

Hinn raunverulegi Jayden K Smith hefur hins vegar orðið fyrir miklu ónæði af þessum völdum og enginn samþykkir vinabeiðnir frá honum.

Það góða við þetta er auðvitað, að þetta er meinlaust og hinn illi Jayden er ekki til. Það eru hins vegar til fjöldinn allur af vinum sem vilja manni vel og senda því aðvörunina áfram…..aftur og aftur.